Með sól í hjarta súkkulaðikakan sem enginn stenst

Í byrjun sumars heimsótti Sjöfn Þórðar Hótel Flatey í þætti sínum Matur og Heimili. Þar var dekra við gesti í mat og drykk og má með sanni segja að matur og munúð væri aðalmerki kokksins og bakarans. Þeir töfruðu fram kræsingarnar sem bæði glöddu auga og munn. Eftirrétturinn sem borinn var fram eitt kvöldið vakti mikla gleði allra viðstaddra og bragðlaukarnir fóru á flug. Þetta var einstaklega góð kaka sem ber heitið Með sól í hjarta og má með segja að hún beri nafn með rentu.

Kakan á sér sögu og í bók Ingibjargar Ástu Pétursdóttur, Mensu, sem inniheldur uppskriftir, frásagnir um mat, minningar og litlu hlutina sem skipta máli, ljóstrar Ingibjörg Ásta upp sögunni bak við þess himnesku súkkulaðiköku, Með sól í hjarta. En Ingibjörg Ásta er einn af sex aðilum sem standa að rekstri hótel Flateyjar og eiga hlut í honum en Ingibjörg Ásta hefur unnði að uppbyggingu hótelsins fjölda ára eða frá árinu 2006 ásamt stöllu sinni Ingunni Jakobsdóttur ásamt manni sínum, Þorsteini og hinum aðilunum.

Súkkulaðikakan Með sól í hjarta er sá eftirréttur sem enginn ætti að láta framhjá sér fara sem heimsækja Hótel Flatey. Hún kom á matseðilinn eftir að ung brúðhjón sem ætluðu að gifta sig út í Flatey fyrir nokkrum árum og brúðguminn tilvonandi vildi hafa einstaklega góða köku í eftirrétt, svona köku með sól í hjarta. Þá enduðu Ingibjörg Ásta og stalla hennar Jósa á því að finna uppskrift eftir vinkonu Jósu sem var mjög erfið áður en hún tókst fullkomlega og hefur hún verið kölluð Með sól í hjarta síðan.

M&H Christopher L á Hótel Flatey

Christopher Lazowsky ber fram súkkulaðikökuna ómótstæðilegu, Með sól í hjarta, sem bökuð er af ástríðu og natni á Hótel Flatey.

Hér kemur svo uppskriftin af þessari einstöku súkkulaði köku sem kokkurinn, Friðgeir Trausti Helgason, sem ávallt er kallaður Geiri og bakarinn Christopher Lazowsky, báru fram með sinni alkunnu snilld.

M&H Með sól í hjarta - Hótel Flatey 2

Með sól í hjarta

4 stór egg

200 g sykur

200 g smjör

200 g suðusúkkulaði

2 msk hveiti

Þurrkað chili milli fingra

Krem

25 g smjör

75 g suðusúkkulaði

2 msk þykkt síróp

Þeytið egg og sykur lengi eða þar til blandan er stíf í hrærivélaskálinni. Bræðið súkkulaði ásamt smjörinu í þykkbotna potti eða jafnvel yfir vatnsbaði. Hrærið stöðugt í og kælið áður en þessu er blandað mjög varlega saman við eggjaþeytinginn með sleif. Hveitið er sigtað og bætt út í þeytinginn. Ekki hræra mikið. Chiliduftinu er bætt síðast saman við. Hellið deiginu í kringlótt og vel smurt kökuform og bakið kökuna í klukkutíma við 160°C hita fyrir miðjum ofni. Ekki opna ofninn fyrr en kakan er bökuð. Kælið kökuna. Takið hana varlega úr forminu og snúið henni við á kökudisknum þannig að kremið fari ofan á botn kökunnar.

Kremið

Bræðið í vatnsbaði smjör, suðusúkkulaði og síróp, hrærið þar til kremið er orðið samfellt og gljáandi, kælið að hálfu áður en kreminu er smurt ofan á kökuna. Kakan er borin fram með þeyttum rjóma og ávöxtum að vild. Einnig er hægt að skreyta hana með ætisblómum.

*Hægt er að sjá þáttinn út í Flatey hér: Matur & Heimili