Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt Íslands, skrifar:
Nú hefur Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) lokið dómi á málið sem þar hefur verið til meðferðar í tilefni af skipun dómara í Landsrétt. Sú furðulega niðurstaða hefur orðið ofaná hjá dómstólnum, að dómurinn sem dæmdi hér á landi í máli kærandans hafi ekki verið réttilega skipaður til að kröfu 6. gr. mannréttindasáttmálans teldist fullnægt. Þessi niðurstaða er að mínum dómi alveg fráleit og felur ekkert annað í sér en afskipti eða inngrip í fullveldisrétt Íslands.
Lítum á málið:
Farið var eftir íslenskum lagareglum við skipun dómarans í embætti. Ráðherra lagði tillögu sína um skipun 15 dómara í Landsrétt fyrir Alþingi, eins og henni bar að gera samkvæmt þeim lagareglum sem um þetta giltu. Þeir höfðu allir verið metnir hæfir til að gegna þessum embættum. Hvergi var kveðið á um neina skyldu ráðherrans til að gera tillögu um einhver tiltekin dómaraefni. Fyrir lá niðurröðun dómnefndar á umsækjendum í excelskjalinu fræga, sem er líklega vitlausasta matsgerð sem þekkst hefur í málum af þessu tagi (hér má vísa til greinar minnar „Stórisannleikur“ sem birtist í Mbl. 10. janúar 2018). Hvergi var kveðið á um að tillögur ráðherrans skyldu fara eftir þeirri uppröðun.
Alþingi samþykkti tillögu ráðherra. Hver og einn alþingismaður hefði getað óskað eftir að atkvæði yrðu greidd um hvert dómaraefni sérstaklega. Enginn gerði slíka kröfu og voru atkvæði greidd um alla í einu, eins og heimilt var samkvæmt lögum um þingsköp.
Forseti Íslands staðfesti afgreiðslu Alþingis að sérstaklega athuguðu máli.
Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að dómarinn væri réttilega kominn í embætti.
Það er eins og MDE hafi verið að leita að tilbúnum ástæðum til að finna eitthvað athugavert við skipun þessa dómara í embætti. Manni gæti helst dottið í hug að einhver dómaranna við réttinn hafi þekkt kæranda eða lögmann hans, ef maður vissi ekki að sjónarmið af þessu tagi koma auðvitað ekki til greina hjá svona virðulegri stofnun eins og dómstóllinn er. Talið var að ráðherra hafi brotið gegn rannsóknarreglu. Hvað ætli hann hafi átt að rannsaka? Umsækjendur um embættið höfðu allir skilað umsóknum með ítarlegri lýsingu á verðleikum sínum og gögnum þeim til stuðnings. Ráðherra hafði þessi gögn undir höndum. Var verið að efast um að hann hefði lesið umsóknirnar?
Var svo eitthvað formlega athugavert við að greiða atkvæði um alla 15 í einu lagi fyrst enginn alþingismanna mótmælti þeim hætti?
Hvaða vitleysa er þetta? Er ekki augljóst að þetta eru tylliástæður sem engu vatni halda?
Svo bætist það við að þetta mál snerist um meðferð á broti á umferðarlögum, þar sem sakborningurinn hafði játað sök. Voru reglur um hlutlausa meðferð máls brotnar með því að refsiákvörðunin var ákveðin af þrautreyndum afbragðsdómara með áratuga langa starfsreynslu?
Þegar dómstóllinn ytra kemst að svona niðurstöðu er hann að brjóta freklega gegn fullveldi Íslands. Þessi erlenda stofnun hefur engan afskiptarétt af efni íslenskra lagareglna um skipun dómara, svo lengi sem í þeim reglum felst ekki í sjálfum sér beint brot á réttindum sakbornings, til dæmis með því að láta verjanda hans eða eiginkonu dæma.
Svo er eins og hjartað sígi ofan í buxur hjá flestum Íslendingum þegar þessi erlendu fyrirmenni hafa sent frá sér valdskotna ákvörðun sína sem enga stoð hefur í lögskiptum okkar við þá. Í stað þess að velta vöngum yfir því hvernig bregðast skuli við ofbeldinu með undirgefnum ráðstöfunum ættu landsmenn að hvetja forráðamenn þjóðarinnar til að mótmæla þessari aðför hástöfum og gera grein fyrir því, sem augljóst ætti að vera, að við lútum ekki ríkisvaldi úr höndum þessarar stofnunar á borð við það sem nú var að okkur rétt. Sjálfstætt og fullvalda ríki lætur ekki bjóða sér slíkt.