Með börnin okkar sem fyrirmyndir getum við sett glimmer plástur á samfélagið

Ég ákvað að skjótast í kringluna með yngri dóttur mína á meðan sú eldri kláraði íþróttaæfingu í nágrenninu.

Auðvitað förum við í H&M því þeirri litlu þykir svo gaman að fá að velja sér leikskóla kjóla skreytta einhyrningum og glimmeri.

Eftir árangursríka verslunarferð förum við upp á kringlutorg til að ná í tilbúin mat enda vel liðið á daginn.

Við mæðgur fáum okkur sæti við biðina eftir matnum. Eldri hjón ganga framhjá okkur og tekur konan stefnuna á salernið. Maðurinn tekur sér stól og varlega færir hann aðeins frá okkur og fær sér sæti.

Dóttir mín er mjög langt því frá að vera feimin og gefur sig á tal við hverja sem er (eignast ömmur og afa reglulega í bónus til dæmis). Henni fannst því eðlilegasti hlutur að halla sér að manninum og segja með sínu þriggja ára máli „ég fékk einhyrrrning á hendina“. Fát kemur á manninn og hann lítur stressaður á mig til að athuga viðbrögð mín á því að barnið væri að tala við ókunnugann mann. Ég brosi bara, enda vön dóttur minni. Hún endurtekur það sem hún sagði og hallar sér enn nær til að leggja áherslu á orð sín. Hann skilur hana ekki allveg þannig að ég teygi mig í pokann og rétti henni armbandið sem er með útstæðum einhyrningsbangsa. Maðurinn segir „aaa... unicorn“. Dóttir mín skellir uppúr og hoppar af kæti „Já! UNICORN“. Og þau hlæja af þessu saman, bæði ánægð að skilja hvort annað. Dóttir mín var fljót að átta sig á því að til þess að hann mundi nú skilja hana almennilega, þá væri bara lang fljótlegast að sýna honum allt sem hún valdi sér í búðinni, þar á meðal frozen kjól, frozen fingravettlinga og einhyrnings húfu. Hann sýndi þessu mikinn áhuga og saman eiga þau skemmtilega stund.

\"\"

Ég áttaði mig ekki á því fyrr en konan hans kom af salerninu og rekur upp stór augu þegar hún sér manninn sinn með einhyrningsarmband á hendinni og frozen kjól á hnénu að þarna gáfum við mæðgur fallega gjöf. Konan gerir það sama og maður sinn gerði stuttu áður, lítur á mig í leit að einhverskonar samþyki. Ég brosi til hennar og segi „they both like unicorns“. Konan fer að hlæja og heilsar dóttur minni.

Hjónin þessi voru af asískum uppruna og töluðu litla íslensku. Þau hafa ekki mikið á milli handanna og voru tötraraleg til fara. Það skipti dóttur mína engu máli, og auðvitað, ekki mig heldur. Greinilegt var að hjónin eru óvön því að vera virt viðlits.

Nokkrum mínútum áður höfðu þreytt og óörugg hjón gengið framhjá okkur. Þau hins vegar kvöddu okkur mæðgur með andlitin uppljómuð og þökkuðu mér fyrir. Já, þau þökkuðu mér fyrir.

Það sem var fyrir mér og dóttur minni hinn eðlilegasti hlutur, reyndist þessu fólki, að mér virtist, afar dýrmætt.

Ég er þakklát dóttur minni fyrir að vera nákvæmlega eins og hún er, opin og  örugg lítil skvetta. Því með hana sem fyrirmynd getum við sett glimmer plástur á skrámur í samfélaginu.

 \"\"