Flest leggjum við áherslu á að lifa eins heilbrigðu lífi og kostur er. Hreyfing er einn af lykilþáttunum hvað þetta varðar en það hvað við látum ofan í okkur skiptir mestu máli.
Vefsíðan Prevention hefur tekið saman nokkrar tegundir matvæla sem við ættum að forðast eins og heitan eldinn að leggja okkur til munns. Færð eru góð og gild rök fyrir því af hverju umrædd matvæli eru óholl.
Jurtafita
Jurtafita (e. Vegetable shortening) er stundum notuð í bakstur enda ágætlega hentug. Þegar talað er um jurtafitu er yfirleitt um herta fitu að ræða en þegar það er gert myndast transfitusýrur. Það hefur margoft verið sýnt fram á óhollustu hennar. Jurtafitu er að finna í ýmsum matvælum, til dæmis kexi, enda lengir hún geymsluþol matvæla sem er gott fyrir framleiðendur. Þessi fita getur aukið LDL í líkamanum en það er stundum kallað slæma kólesterólið.
Gos með sætuefnum
Hér er ekki verið að mæla frekar með neyslu á sykruðum drykkjum, þvert á móti. Í grein Prevention segir næringarfræðingurinn Shonali Soans að sykurlausir gosdrykkir, sem oftar en ekki eru stútfullir af gervisætuefnum, geti þó jafnvel verið verri en sykraðir drykkir. Shonali segir að rannsóknir hafi bent til þess að fylgni sé á milli neyslu á sykurlausum gosdrykkjum og krabbameins þó ítrekað sé að frekari rannsókna sé þörf. Þegar drykkir eru annars vegar er vatnið alltaf besti kosturinn.
Fituskert hnetusmjör
Hreint hnetusmjör inniheldur góða og holla fitu en þó er ekki mælt með óhóflegri neyslu á hnetusmjöri enda er það einstaklinga orkumikið. „En þegar við tökum fituna úr hnetusmjörinu erum við ekki bara að minnka magn hollu fitunnar sem við fáum heldur sennilega að gera það á kostnað meiri sykurs og fleiri gerviefna,“ segir næringarfræðingurinn Amy Gorin. Gorin segir að best sé að kaupa eins hreint hnetusmjör og kostur er.
Morgunkorn unnið úr hvítu hveiti
Börnin elska sykrað morgunkorn og það getur verið freistandi fyrir þá sem eldri eru að stelast í einn og einn disk. En Julie Andrews, næringarfræðingur í Wisconsin, hvetur fólk til að kanna hvort morgunkornið sé búið til úr hvítu hveiti. Slíkt morgunkorn er yfirleitt næringarsnautt og inniheldur auk þess mikið af unnum kolvetnum. Með öðrum orðum getur slíkt morgunkorn hækkað blóðsykurinn verulega á skömmum tíma með tilheyrandi falli og svengd ekki löngu síðar. Andrews hvetur fólk til að borða frekar trefjaríkt morgunkorn.
Kleinuhringir
Þetta segir sig nokkurn veginn sjálft enda innihalda kleinuhringir mikið magn sykurs og óhollrar fitu. Djúpsteikingin gerir það að verkum að þeir innihalda transfitu sem aftur getur hækkað LDL í líkamanum – slæma kólesterólið.
Örbylgjupopp
Þetta kemur kannski sumum á óvart enda margir sem telja að poppkorn sé tiltölulega hollur kostur þegar kemur að kvöldsnarli, til dæmis yfir sjónvarpinu. Poppið er ekki versti óvinurinn okkar en Lorraine Kearney, næringarfræðingur og stofnandi New York City Nutrition, bendir á að örbylgjupopp innihaldi fjölmörg framandi efni, til dæmis gerviefni sem eiga að gera bragðið betra. Lorraine segir að ef fólk vill fá sér popp ætti það endilega að poppa sjálft heima. Þannig getum við haft miklu betri stjórn á því hvað við látum inn fyrir varir okkar.
Skyndinúðlur eða pakkanúðlur
„Þegar ég sé viðskeytið „skyndi“ þýðir það að átt hefur verið matinn með einhverjum hætti,“ segir Shonali Soans. Soans bendir á að líkur séu á að það góða hafi verið tekið burt, til dæmis trefjar. Þá segir hún að skyndinúðlur innihaldi oft mikið af salti og MSG sem notað er til að gera bragðið meira aðlaðandi. Lengi hafa verið uppi umræður um skaðleg áhrif MSG.
Orkudrykkir
Umræðan um orkudrykki skýtur reglulega upp kollinum enda innihalda þeir oft mikið af sykri og koffíni. Sumir þeirra eru þó sykurlausir og ber að forðast þá af sömu ástæðu og sykurlausu gosdrykkina sem fjallað er um hér að framan. Lorraine Kearny segir að mörg þeirra fyrirtækja sem framleiða orkudrykki gefi ekki upp hvaða efni eru notuð til að ná fram bragðinu í drykkjunum. „Við erum kannski með orkudrykk með bláberjabragði en höfum ekki hugmynd um hvaða efni voru notuð til að ná fram þessu bragði,“ segir Lorraine.