Í hjarta Stykkishólms á Snæfellsnesi er að finna sælkera veitingastaðinn Narfeyrarstofu í reisulegu og fallegu húsi með sál. Matreiðslumeistarinn Sæþór H. Þorbergsson og konan hans Steinunn Helgadóttir framkvæmda- og veitingastjóri Narfeyrarstofu eru eigendur og rekstraðailar staðarins og fögnuðu tuttugu ára afmæli staðarins í júní byrjun. Narfeyrarstofa er elsti veitingastaður Stykkishólms og má með sanni segja að staðurinn hafi elst vel. Hjónin leggja metnað sinn í að bjóða mat sem gerður er frá grunni á staðnum með áherslu á gæða hráefni úr sjó, Breiðafirðinum, og sveitunum í kring. Sjöfn Þórðar heimsækir hjónin á Narfeyrarstofu og kynnist hjónunum og sögunni bak við staðinn þeirra sem er sannkallað augnakonfekt og áherslum í matargerðinni í þættinum Matur og Heimili í kvöld.
Hjónin hafa mikla ástríðu fyrir því sem þau eru að gera og staðurinn er þeirra hugarfóstur.„Við höfum mikinn áhuga á mat og matarmenningu ásamt hönnun en við hönnuðum sjálf Narfeyrarstofu eins og hún er í dag,“segir Steinunn en árið 2001 bauðst þeim að kaupa Narfeyrarstofu sem þá var kaffihús og þáverandi eigandi bjó á efri hæðinni. „Við sjálf stóðum á tímamótum vinnulega séð og slógum til og keyptum staðinn og breyttum honum í veitingahús,“segir Steinunn og við tók mikil vinna við breytingar á staðnum.
„Við viljum bjóða gestum okkar uppá ósvikna matarveislu umvafða stórbrotinni náttúru Snæfellsnesins sem gleður bæði auga og munn,“segja hjónin Sæþór og Steinunn og það má með sanni segja að matarástin blómstri á staðnum. Aðalsmerki Narfeyrarstofu er að nýta allt það úrvals hráefni sem umhverfið og nærsveitin hefur upp á að bjóða. „Við búum náttúrulega við matarkistu Íslands, Breiðafjörðinn og vera alin upp á svona stað þá kom ekkert annað til greina. Breiðafjörðurinn gefur af sér alveg einstakt hráefni td. hörpuskel, bláskel, allan sjófugl og egg. Svo er sauðfé á mörgum eyjum Breiðafjarðar. Okkar fé er til að mynda keypt af landsnámsjörðinni Helgafelli.“
Meira um ástríðuna í matarmenningunni sem er að finna á Narfeyrarstofu í þættinum Matur og Heimili með Sjöfn Þórðar á Hringbraut í kvöld klukkan 19.00 og aftur klukkan 21.00.