Tryggvaskáli er elsta hús Selfoss og er saga þess samofin bænum hvort sem litið er til sögu hans eða umhverfis og er hann kennileiti fyrir bæjarstæði. Skálinn var reistur árið 1890 sem skáli fyrir brúarsmíðina fyrir forgöngu Tryggva Gunnarssonar og er við hann kenndur. Árið 1901 hófst veitingarekstur í húsinu og þar var einnig rekið gistiheimili. Húsið var fyrst stækkað með viðbyggingu árið 1902 og síðan hefur margoft verið byggt við Tryggvaskála, síðast árið 1934. Það er því ánægjulegt að sjá að 120 árum síðar er enn veitingarekstur í skálanum og matar- og menningarlífið blómstrar í Tryggvaskála sem aldrei fyrr. Þeir Tómas Þóroddsson veitingamaður og Ívar Þór Elíasson matreiðslumaður tóku við rekstri skálans ásamt Margréti Rán Guðjónsdóttur, í maí síðastliðnum. Sjöfn heimsækir þá félaga og fær söguna bak við tilurð þess þeir ákváðu að fara í þennan rekstur saman og tækifærin sem þeir sjá í rekstrinum.
Tryggvaskáli er kennileiti bæjarins og hefur verið táknræn fyrir brúarsmíðina.
„Það er nú skondin saga að segja frá því hvernig leiðir okkar lágu saman í þennan rekstur,“ segir Ívar og glottir. Þeir félagar hafa auðgað bæjarlífið með opnun staðarins að nýju þar sem menningarlífið fær líka að njóta sín í skálanum. „Við höfum gert töluverðar breytingar í matargerðinni og því sem við erum að bjóða uppá. Við breyttum þó ekki mikið hér inni enda húsið friðað og mikil saga sem fylgir húsinu. Við leggjum áherslu á að andrúmsloftið sé hlýlegt og stemning létt og skemmtileg,“segir Tómas.
„Matargerðin hefur breyst og meira lagt upp úr að hægt sé að koma og fá sér drykk og eitthvað létt að borða en að sjálfsögðum bjóðum við áfram uppá steikur og fiskrétti,“segir Ívar sem er yfirkokkur staðarins og nýtur sín allra best í eldhúsinu við að töfrar fram kræsingar fyrir matargesti.
Missið ekki af innliti Sjafnar Þórðar í Tryggvaskála þar sem hlutirnir gerast í þættinum Matur og Heimili í kvöld klukkan 19.00 og aftur klukkan 21.00 á Hringbraut.
Ívar Þ. Elíasson matreiðslumaður og yfirkokkur ásamt Sjöfn Þórðar og Tómasi Þóroddssyni veitingamanni.