„Heilbrigðisstarfsfólki hefur ekki ennþá verið skipað að halda sig heima heldur hafa komið tilmæli, sum hafa getað breytt sínum ferðum en önnur ekki. Ástæður geta verið alls konar.“
Þetta segir Marta Jónsdóttir formaður hjúkrunarráðs og hjúkrunarfræðingur á Hjartagátt í pistli í Fréttablaðinu. Hún bendir á að hjúkrunarfræðingar séu kjarasamningslausir og hafa verið í næstum ár.
„Sá kjarasamningur sem við erum laus undan var ekki einu sinni samningur heldur lög sem voru sett á verkfall hjúkrunarfræðinga sem enn eru með um 20 prósent lægri laun en aðrar sambærilegar fagstéttir,“ segir Marta og bætir við:
„Samt svo mikilvæg þegar á reynir. Svo mikilvæg að það er eins gott að taka ekki pásu, líta aldrei undan. Ég skil ekki alveg tilganginn með svona fréttaflutningi, er verið að reyna að grafa undan trausti til heilbrigðiskerfisins?“ spyr Marta og heldur áfram:
„Er verið að reyna að finna sökudólg og erum við auðvelt skotmark því einhver gleymdi geislabaugnum heima og hagaði sér eins og manneskja?“ spyr Marta og biðlar til almennings að standa með hjúkrunarfræðingum.
„Við þurfum á því að halda. Sérstaklega núna, þegar heilbrigðisstarfsfólk af öllum mögulegum fagstéttum tekur á sig auka vinnu, forðast mannamót, breytir plönum eins og hægt er og er stöðugt að fræða aðra og leggja sitt af mörkum til að þessi COVID-19 faraldur valdi sem minnstum skakkaföllum í þjóðfélaginu.“
Þá segir Marta að lokum:
„Aftur - við erum öll að gera okkar besta!“