Allir þingmenn Viðreisnar hafa ásamt einum þingmanni Samfylkingar og einum þingmanni Pírata tekið markvert frumkvæði með framlagningu frumvarps sem ætlað er að auka traust á því regluverki sem gildir um stjórn fiskveiða.
Þetta eru fyrstu tillögurnar, sem lagðar eru fram á Alþingi, eftir að upplýsingarnar í Samherjaskjölunum grófu undan því trausti, sem fólkið í landinu hefur sýnt sjávarútvegsfyrirtækjunum með því að veita þeim einkarétt á að veiða úr sameiginlegri auðlind þjóðarinnar.
Frumvarpið er þríþætt:
Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að stöðva sniðgöngu um þær reglur sem gilda um hámark heildaraflahlutdeildar einstakra fyrirtækja. Þetta er gert með því að herða kröfur um tengda aðila. Þannig verður heildaraflahlutdeild fyrirtækja lögð saman ef annað þeirra ræður yfir 1% heildaraflahlutdeildar eða meira og á 10% í öðru fyrirtæki.
Í öðru lagi er mælt fyrir um aukið gegnsæi varðandi upplýsingar um rekstur sjávarútvegsfyrirtækja. Þetta er gert með því að skylda öll sjávarútvegsfyrirtæki sem ráða yfir 1% heildaraflahlutdeildar eða meira til skrásetningar á hlutabréfamarkaði.
Í þriðja lagi er ákvæði um að stærstu sjávarútvegsfyrirtækin verði framvegis í dreifðri eignaraðild. Þetta er gert með því að ákveða að enginn geti farið með stærri eignarhlut en 10% í þeim sjávarútvegsfyrirtækjum sem ráða yfir 8% heildaraflahlutdeildar eða meira.
Þetta eru afar málefnalegar tillögur, sem með ótvíræðum hætti geta stuðlað að því að byggja upp meira traust. Hæfilegir frestir eru gefnir til aðlögunar. Með engu móti er því unnt að segja að gengið sé hart að þeim fyrirtækjum, sem tillögurnar ná nú þegar til og þurfa eðlilega tíma til aðlögunar.
Athyglisvert er að stórir fjölmiðlar eins og Ríkisútvarpið og Morgunblaðið þegja þunnu hljóði um þennan tillöguflutning.
En hér þarf meira að koma til:
Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að gera samanburð á þeim heildargreiðslum fyrir veiðirétt í Namibíu, sem Samherjaskjölin greina frá, og þeim veiðigjöldum sem fyrirtækið greiðir fyrir afnot að sameiginlegri auðlind Íslendinga. Slíkur samanburður er mikilvægur fyrir málefnalega umræðu um réttmæti núverandi gjalds.
Af óskiljanlegum ástæðum hafa bæði forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra hafnað því að samanburður af þessu tagi verði gerður. Staðreyndir ættu þó ekki að skemma fyrir neinum, eða hvað? Ærin ástæða er fyrir stjórnarandstöðuflokkana þrjá að þrýsta á ríkisstjórnina í þessu einfalda en sjálfsagða máli.
Í öðru lagi er nauðsynlegt að fram komi tillaga að stjórnarskrárákvæði, sem kveði skýrt á um tímabundinn veiðirétt og að veiðigjaldið skuli endurspegla tímalengdina. Auðlindanefnd Jóhannesar
Nordal kom fyrst fram með tillögu af þessu tagi, sem allir flokkar féllust á. Síðar koma stjórnlagaráð fram með svipaða tillögu.
Landssamband íslenskra útvegsmanna lýsti á sínum tíma stuðningi við þessa tillögu auðlindanefndar. Nokkrum árum seinna snerist Samherji ásamt með fleiri stærri útgerðarfyrirtækjum gegn því sem þau höfðu áður samþykkt. Sjálfstæðisflokkurinn skipti þá einnig um skoðun. Og nú þverneitar forsætisráðherra og formaður VG að flytja tillögu í samræmi við tillögu auðlindanefndar.
Málamiðlunum hafnað
Þingmenn Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata hafa tvívegis á þessu kjörtímabili lagt fram tillögur um breytingar á almennum lögum til að ná þessu fram.
Í fyrra tilvikinu var um mjög óvenjulegt sáttaboð að ræða af hálfu stjórnarandstöðu. Flokkarnir buðust til að fallast á það veiðigjald, sem ríkisstjórnin lagði til, ef veiðirétturinn yrði tímabundinn. Forsætisráðherra hafnaði þessu boði afdráttarlaust og lét fella tillögurnar.
Í síðara sinnið lagði stjórnarandstaðan til markaðsgjald á makríl þar sem veiðiheimildir yrðu ákveðnar til tiltekins tíma. Forsætisráðherra hafnaði þessu með öllu og lét fella tillögurnar. (Þetta var á sama tíma og heilbrigðisráðherra var á bak við tjöldin að undirbúa markaðsuppboð á sjúkraþjálfun).
Gott lag til að fylgja málinu eftir gagnvart kjósendum
Þegar tillögur hafa komið fram um tímabundinn nýtingarrétt í almennum lögum hefur forsætisráðherra borið því við að rétt sé að fjalla um álitaefnið í stjórnarskrá. Þegar stjórnarskráin kemur til umræðu segir hún að rétt sé að fjalla um mál af þessu tagi í almennum lögum.
Augljóst er því að viðsnúningur VG í þessu máli byggir ekki á málefnalegum rökum. Formaður Framsóknar ítrekar svo reglulega stuðning við tímabundnar veiðiheimildir. En forystumenn VG og Sjálfstæðisflokks hlusta bara ekki á hann.
Það er því augljóslega gott lag til að fylgja málinu eftir gagnvart kjósendum.