„Getum við aðeins staldrað við. Mér er mikið niðri fyrir og ég er mjög hrædd um börnin mín ég ætla að reyna að setja hugsanir mínar hérna niður,“ segir María Lilja Þrastardóttir, fjölmiðlakona og frambjóðandi Sósíalista í komandi þingkosningum, í pistli sem hún birtir á Twitter. Hún óttast að börn gætu veikst og jafnvel dáið ef skólarnir opna í haust.
Hún bendir á að í fyrsta faraldri Covid-19 var tekin ákvörðun um að of mikil áhætta fælist í að ná upp hjarðónæmi vegna álags á bráðadeildir og spítalann almennt, fleiri myndu fá verri aðstoð og deyja. Þá hafi Covid-19 helst lagst á fullorðna. „Börnin hafa verið í sumarfríi með sínu fólki. Það er því ljóst að mikil aukning verður á smitum þegar þau svo koma saman úr öllum áttum og veiran á þeirri dreifingu sem hún er,“ segir María Lilja.
„Ef bráðadeild er sprungin hvernig sér ríkisstjórnin fyrir sér að mæta þörfum þeirra fjölmörgu barna sem nú á hreinlega að smala saman í skipulagt hópsmit eftir rúma viku?“
Hún segir það eigi að gera tilraun til að ná fram hjarðónæmi hjá óbólusettum börnum þó spítalar séu yfirfullir. „Svo að hjól atvinnulífsins stöðvist ekki og almenningur komist til vinnu, skapi ríkum fé. Hjarðónæmi var ekki talinn góður kostur áður og þá voru börn ekki í áhættuhópi,“ segir hún. Óttast hún jafnvel að börn muni deyja.
„Núna er delta á dreifingu og börnin (sem skapa engum fé) eru útsettari en áður. Geta sum orðið mjög veik, jafnvel dáið þó blessunarlega sé það ekki algengt. En hvað gerist þegar þau fá skerta þjónustu vegna álags? Er þetta í alvöru séns sem á að taka? Fyrir hverja? -ekki börnin.“