María Heba ræðir barnsmissinn, ástina og lífið í leiklist: Grætur ekki sinn eigin sársauka í vinnunni

María Heba Þor­kels­dóttir kynntist eigin­manni sínum að­eins tví­tug. Hún segir í viðtali í Fréttablaðinu í dag að reynsla þeirra af barnsmissi hafa styrkt sam­band þeirra en María missti barn í móður­kviði árið 2006. Hún segir hjartað slá í leik­húsinu en nýtur þess þó einnig að leika í sjón­varpi.

María Heba fer með stórt hlutverk í sjónvarpsþáttunum Systraböndum sem nýlega voru sýndir í Sjónvarpi Símans. Sagan segir frá því þegar ung stúlka hverfur á tíunda áratug síðustu aldar og því hvernig þrjár æskuvinkonur þurfa að horfast í augu við fortíðina þegar mannabein finnast á æskuslóðum þeirra.

Í Systraböndum leikur María Heba móður sem missir barnið sitt. Hún segir hlutverkið hafa verið krefjandi á ýmsan hátt en María Heba deilir þeirri upplifun með karakter sínum að hafa misst barn.

„Við Kristófer misstum dóttur í móðurkviði í október árið 2006,“ segir María Heba. „Hún var annað barnið okkar en þarna var elsti strákurinn okkar eins og hálfs árs, hún var andvana fædd og ég var gengin rúmar 32 vikur,“ bætir hún við.

Spurð að því hvort reynsla hennar af barnsmissi hafi nýst henni við hlutverk hennar í Systraböndum segir María Heba alla reynslu stækka hana sem listamann en að sem leikkona gráti hún ekki sinn eigin sársauka þegar hún er í vinnunni. „Sem leikari get ég ekki farið og sótt beint í mína reynslu eða minn sársauka þegar ég er að leika. Við Rut deilum þessari reynslu á einhvern hátt en hún er að gráta annað en ég, mín tár á dóttir mín og þau eru alveg heilög,“ útskýrir hún.

María Heba ræðir einnig femínisma, samband hennar við manninn sinn og margt fleira í viðtalinu sem má lesa í heild sinni hér.

Fleiri fréttir