Marghöfða þursar og höfuðlausir á flakki

Tungumálið er meginforsenda samskipta. Með því túlkum við heiminn og tjáum tilfinningar okkar, vonir og þrár. Vont orðfæri bitnar á samskiptum manna og þeir sem hafa lítið á vald á íslenskunni eiga eðli máls samkvæmt örðugt með að koma hugsun sinni á framfæri við aðra. Flest viljum við vanda málfar okkar en hér að neðan eru tólf algengar villur sem ég hef heyrt á tali manna eða séð ritaðar undanfarna daga.

1. Nýverið heyrði ég mann segja að „mestur hluti sjúklinganna“ á tiltekinni sjúkrastofnun hefði fótavist. Ekki fer vel á því að „hluti“ sjúklinganna séu á flakki (ef til vill höfuðlausir?). Nær væri að segja að þeir hefðu fótavist.

2. Eftir brotthvarf WOW Air (eða Váflugs?) hafa flugfargjöldin hækkað stórum, en alltof margir segja „fargjöldin dýr“. Fargjöld eru aldrei dýr en þau geta verið .

3. Úr því að minnst er á flugmál, þá má árétta að þota beygist eins og gata. Eignarfall fleirtölu með greini er því þotnanna ekki „þotanna“.

4. Þessi dægrin eru fjölmörg frumvörp afgreidd sem lög frá Alþingi og einn fjölmiðlungur sagði „fjögur lög“ hafa verið samþykkt. Það gæti staðist ef um væri að ræða sönglög, en því er ekki að heilsa svo við segjum fern lög.

5. Eitt og annað breytist vegna setningar nýrra laga, en á dögunum sagði fréttamaður að eitthvað hefði breyst vegna „setningu“ nýrra laga, sem vitaskuld er ekki rétt. Eignarfallsflótti af þessu tagi er algengur.

6. Þá sagði frá því í þætti nokkrum að fréttamaður hefði spurt þingmanninn um álit „sitt“ á þriðja orkupakkanum svokallaða. Okkur varðar ekkert um álit fréttamannsins sjálfs. Þarna hefði verið rétt að segja að fréttamaðurinn hefði spurt þingmanninn um álit hans á málinu.

7. Ensk máláhrif birtast víða. Í morgunfréttum var komist svo að orði: „Síðustu nótt var bifreið stolið.“ Rétt væri að segja: Í nótt var bifreið stolið.

8. Nemendur þreyta próf þessa dagana og rétt að minna á að hæstu einkunnir eru ágætiseinkunnir, þ.e. 9,00 og hærra. Einkunn er góð frá 7,25 upp í 8,99, en í daglegu tali virðist æ oftar sem gott sé álitið betra en ágætt.

9. Í þann mund sem tími nemenda er á þrotum er bjöllunni hringt og þegar við lítum í heimsókn til kunningja hringjum við bjöllunni. Að „dingla“ merkir ekki að hringja og því ekki rétt að „dingla bjöllu“ nema verið sé að sveifla henni til og frá.

10. Ég heyrði mann taka svo til orða: „Þeir hristu höfuðin.“ Þetta getur ekki staðist nema um væri að ræða tví- eða marghöfða þursa. Rétt væri að segja: Þeir hristu höfuðið.

11. Sagt var: „Ef þú mundir detta, þá mundirðu geta meitt þig.“ Þessa langloku þarf að stytta og fegra: Ef þú dyttir, þá gætirðu meitt þig.

12. „Það var sagt honum að fara,“ mælti barnið, en auðvitað var honum sagt að fara. Í þekktum dægurlagatexta var gert grín að þessu orðfæri og sungið: „Það var sagt mér að það væri partí hérna.“ Þessi skrýtna orðaröð verður æ algengari þrátt fyrir að misbjóða málvitund flestra.