Þegar Sjöfn Þórðar heimsótti Berglindi Hreiðarsdóttur köku- og matarbloggara í nýja pizzahornið hennar úti á palli í þættinum Matur & Heimili þar sem Berglind bauð uppá brakandi eldbakaðar pizzur lét Berglind ekki staðar numið. Berglind er ekki þekkt fyrir annað en fara alla leið þegar kemur að því að setja saman matseðil og segir að til að toppa máltíðina sé mikilvægt að bjóða uppá eftirrétt. Engin undantekning var á því þegar Sjöfn bar að garði og bauð Berglind uppá dýrinds Marengsdúllur í eftirrétt, með löðrandi ljúffengri karamellusósu sem gleður bæði auga og munn. Eftir upplifun Sjafnar eftir að hafa bragðað Marengsdúllurnar var Sjöfn á því að þarna væri um að ræða skothelda karamellusósu og marengs sem enginn gæti staðist. Kökurnar hennar Berglindar eru ávallt stórglæsilega skreyttar og gleðja ávallt gestsaugað líkt og munn og maga og þessar dúllur steinliggja. Berglind gaf út á dögunum uppskriftarbókina Saumaklúbburinn og eru Marengsdúllurnar meðal þeirra uppskrifta sem þar leynast. Berglind ljóstrar hér upp uppskriftinni fyrir ykkur lesendur góðir og hér má einnig sjá þáttinn: Matur & Heimili
Marengsdúllur
Uppskriftin gefur um 16-18 stykki
Marengs
- 4 eggjahvítur
- 280 g púðursykur
- Hitið ofninn í 110°C.
- Þeytið eggjahvíturnar þar til þær byrja aðeins að freyða.
- Bætið sykrinum saman við í nokkrum skömmtum og þeytið þar til topparnir halda sér.
- Sprautið marengs á bökunarpappír á bökunarplötu og gerið smá holu með skeið í miðjunni (til að koma karamellu og rjóma betur fyrir).
- Bakið í 70 mínútur, slökkvið á ofninum án þess að opna og leyfið að kólna niður.
Karamella
- 200 g Dumle karamellur (um 25 stykki)
- 60 ml rjómi
Bræðið saman í potti þar til slétt og falleg karamella hefur myndast.
Takið af hellunni og leyfið hitanum að rjúka vel úr.
Fylling
- 500 ml þeyttur rjómi
- 150 g Daim kúlur (um 1 ½ poki)
- Brómber og blóm sé þess óskað
Samsetning
- Setjið um eina teskeið af karamellusósu ofan á hvern marengs.
- Sprautið vel af rjóma þar ofan á og setjið síðan smá karamellu yfir rjómann líka (hér þarf hún að vera búin að ná stofuhita til að bræða ekki rjómann).
- Stráið Daim kúlum yfir allt og skreytið með brómberi og blómum.
Upplagt að bera fram á fallegum kökudisk og njóta til fulls.
Sjöfn Þórðar og Berglind Hreiðarsdóttir.