Tuttugu þúsund manns, fullorðnir og börn, í myrkvuðum, ísköldum húsum. Málstola kýr í fjósum, fjarskiptin úti. Örmagna bændur að reyna með handafli að bjarga því sem bjargað verður. Mannslíf farið í súginn. Sannkallað neyðarástand og tjón sem seint verður metið til fjár.
Það reyndist vera samtakamáttur landsmanna, sjálfboðaliðasamtökin, samhugur og samhæfðar aðgerðir íbúa sem bjargaði því sem bjargað varð. Ekki stjórnvöld landsins. Ekki ráðherrarnir sem heimsóttu verstu hamfarasvæðin og létu taka við sig viðtöl þar sem þau vörpuðu frá sér ábyrgð og reyndu beina henni annað, til dæmis að landeigendum. Í leiðinni náðust myndir af uppsettu fjölmiðla \"stönnti\" þar sem þau spreyttu sig brosandi á að berja ísingu af rafmagnslínubút. Á sama tíma voru tugir manna að leita við lífshættulegar aðstæður sextán ára drengs sem krapaflóð hreif með sér út í ána þar sem hann var að aðstoða við að koma rafmagni á bæinn ... og lét þar sitt unga líf. Fórnarkostnaður innviðabrests sem öllum má vera ljóst að stafar af langvarandi vanrækslu og skeytingarleysi sem varðar ekki aðeins almannaheill heldur sjálft þjóðaröryggið.
Hvernig getur annað eins gerst í samfélagi sem kennir sig við nútímavelferð og tækni? Hvað er það sem raunverulega fór úrskeiðis?
Meðan við vorum bláfátæk þjóð tókst okkur að byggja upp mikilvæga samfélagsinnviði á borð við heilbrigðiskerfi, menntakerfi, almannatryggingar og félagslegt húsnæðiskerfi. Rafmagn var leitt í alla landshluta og byggðar upp samgönguæðar. Ekki var veraldlegu ríkidæmi þjóðarinnar fyrir að fara en ráðamenn þeirra tíma voru drifnir áfram af framfarahug og samfélagslegri umhyggju. Þau þorðu að taka ákvarðandi, tóku sjálf ábyrgð á orðum sínum og gjörðum. Höfðu framtíðarsýn og börðust fyrir komandi kynslóðir. Þau byggðu upp samfélag.
Kynslóðin sem fékk þennan mikla arf hefur ekki verið jafn forsjál. Hefur ekki skilið vitjun sína og erindi eða skyldur sínar við núlifendur og komandi kynslóðir. Mér hefur oft fundist síðustu ár eins og viljaleysið og umhyggjuskorturinn hafi verið okkar helsti óvinur. Heilbrigðiskerfi okkar er í alvarlegum vanda og þar skapast með reglulegu millibili neyðarástand á göngum Landspítalans. Menntakerfið virðist einnig hafa brugðist ef marka má Piza kannanir sem sýna minnkandi lestrarskilning íslenskra ungmenna. Bókmenntaþjóðin sjálf er að verða ólæs. Nú kemur í ljós að stoðkerfi á borð við rafmagn, samgöngur og fjarskipti hafa sömuleiðis verið vanrækt.
Stoðirnar sem fyrri kynslóðum tókst að reisa hafa síðan verið og eru okkar samfélagslegu fjöregg. Okkur ber að gæta þeirra eins og sjáaldurs í auga, því á þessum stoðum veltur velferð okkar öll. En því miður hefur þessum sömu fjöreggjum af tröllheimsku og skeytingarleysi verið kastað á loft, milli ábyrgðarfælinna ráðamanna. Í síðustu viku löskuðust sum þeirra og brotnuðu næstum alveg. Það má aldrei gerast aftur.
Við erum ein þjóð í einu landi. Við verðum að standa saman og líta á landið allt sem einn velferðarvettvang. Þegar hamfarir ríða yfir - og þær höfum við stundum fengið að upplifa - þá erum við minnt á mikilvægi þess að ala önn fyrir hvert öðru. Það á við um ráðamenn landsins ekki síst.
Að fortíð skal hyggja ef framtíð skal byggja segir máltækið. Ráðamenn landsins mættu sumir hverjir líta til þess fordæmis sem fyrri tíðar menn settu, þegar verið var að byggja upp íslenskt samfélag og koma þjóðinni inn í nútímann. Af því fordæmi má margt læra - til dæmis það að stundum er vilji allt sem þarf.