Konungsbók Eddukvæða er gersemi og þar er geymdur gimsteinn. Í Hávamálum er að finna lífsspeki – hversdagslegar ráðleggingar og háspeki. Hávamál hafa fylgt okkur í gegnum aldir og margar af hendingunum lifað góðu lífi með þjóðinni og hún gripið til þeirra við ýmis tilefni.
Ein er sú sem um þessar mundir hefur sérstaka þýðingu:
Ungur var eg forðum,
fór eg einn saman,
þá varð eg villur vega,
auðigur þóttumst
er eg annan fann,
maður er manns gaman.
Það er sum sé auðvelt að villast af leið séu menn einir og hafi sér engan til halds og trausts. Líklegra er að finni menn sér förunaut finni þeir réttu leiðina í lífinu þar sem ánægja fylgi því að njóta félagsskapar annarra.
Þessi ábending Hávamála kemur í hugann nú þegar við búum við samkomubann og takmörkum samvistir við aðra sem mest við megum. Þeim sem vanir eru að heilsa með handabandi líður eins og þeir séu óuppdregnir dónar og menn leggja jafnvel lykkju á leið sína til að forðast að stíga inn fyrir tveggja metra radíus þeirra sem á vegi þeirra verða. Þessu er erfitt að venjast.
Bent hefur verið á að þeir sem verst verða úti á þessum samneytislausu tímum séu þeir sem eru rosknir eða veilir og því viðkvæmari fyrir sóttinni en hinir yngri og fullfrísku. Fjölskyldur hætta að heimsækja afa og ömmu og þeir sem ekki eru fullfrískir halda sig að mestu innanhúss og hitta fáa. En þetta eru þeir sem rannsóknir sýna að sé sá hópur sem er mest einmana alla jafna.
Á þessum tímum er ýmislegt annað að varast. Vantraust grefur um sig og tortryggni verður vart. Er örugglega verið að segja okkur satt? Kviksögur eiga reiprennandi farveg. Kvarðar með margs konar tölfræði verða að meginatriði. Enginn veltir fyrir sér hvort fleiri tapi lífinu við fall í stiga árlega en þeir sem veiran verður að aldurtila.
Og ef á fyrir mönnum að liggja að deyja, fyrr eða síðar, voru orð Kára Stefánssonar í helgarblaðsviðtali Fréttablaðsins um síðustu helgi forvitnileg þegar hann var spurður um hvort hann óttaðist að smitast: „Ég vona að ef ég sýkist þá jafni ég mig en ef ég jafna mig ekki þá er ég búinn að lifa býsna góðu lífi.“ Æðruleysið verður varla tærara.
En mikilvægast í öllu þessu er að tapa ekki gleðinni. Gleðjast yfir stóru og smáu og hugsa með tilhlökkun til þess tíma þegar þetta allt verður að baki. Sá dagur nálgast þó mörgum finnist föstudagurinn langi vera daglega. Þegar það verður, vonum við að hefðir, siðir og venjur lifni við á ný. Heimsóknir til ömmu og afa, vinafundir, faðmlög og handabönd verði eins sjálfsagðir og áður. Þá verður næstum allt eins og fyrrum var.
Og maður verður manns gaman á ný.
Birtist fyrst í Fréttablaðinu - Höfundur er ritstjóri Fréttablaðsins.