Málskostnaður í máli forsetans gegn mér

Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður skrifar:

Þegar menn takast á fyrir dómi leita þeir oftast lög­manns­að­stoðar við að reka málið fyrir sig. Það kostar peninga. Í lögum er að finna á­kvæði um að sá sem „tapar máli í öllu veru­legu“ skuli að jafnaði dæmdur til að greiða gagn­aðila sínum máls­kostnað. Þá er átt við þann kostnað sem gagn­aðilinn hefur orðið fyrir vegna mála­rekstursins.

Venju­lega gera báðir máls­aðilar kröfu á hendur hinum um að fá máls­kostnað sinn greiddan úr hans hendi. Lögin gera ráð fyrir að aðili sem krefst máls­kostnaðar síns úr hendi gagn­aðila geri grein fyrir honum með sér­stökum máls­kostnaðar­reikningi sem lagður er fram við aðal­með­ferð máls.

Fyrir kemur að í dómi sé kveðið á um að máls­kostnaður sé felldur niður. Í því felst á­kvörðun um að hvor aðila skuli bera sinn kostnað sjálfur. Er þetta m.a. heimilt ef veru­leg vafa­at­riði þykja vera í máli.

Ef sá sem tapar máli, á­frýjar dómi til æðra dóm­stigs og svo fer að hinn á­frýjaði dómur er stað­festur er á­frýjandinn að jafnaði dæmdur til að greiða hinum kostnað hans á á­frýjunar­stigi. Þetta má heita nær al­gild regla og þá á­vallt ef for­sendur æðra dóms fyrir niður­stöðu sinni eru hinar sömu og var á neðra stiginu.

Í máli Bene­dikts Boga­sonar gegn mér sem dæmt var í Hæsta­rétti s.l. föstu­dag höfðu báðir aðilar uppi kröfur á öllum þremur dóm­stigum um að gagn­aðili greiddi þeim máls­kostnað. Af minni hálfu var, eins og menn vita, krafist sýknu af kröfum Bene­dikts. Var sú krafa ein­fald­lega byggð á því að ég hefði notið mál­frelsis til að segja það sem ég hafði sagt í kafla bókar minnar um dóminn í máli Baldurs Guð­laugs­sonar. Héraðs­dómarinn féllst á þetta og sýknaði mig af kröfum Bene­dikts, en felldi niður máls­kostnað. Það var skrýtin af­greiðsla og ekki í sam­ræmi við dóma­fram­kvæmd.

Bene­dikt á­frýjaði þessum dómi til Lands­réttar sem stað­festi héraðs­dóminn með sömu rökum. Máls­kostnaður fyrir Lands­rétti var samt felldur niður. Þetta var furðu­legt og and­stætt fyrri dóma­fram­kvæmd. Bene­dikt á­frýjaði þessum dómi til Hæsta­réttar að fengnu á­frýjunar­leyfi. Allt fór á sama veg. Ég var sýknaður með sömu rök­semdum og fyrr um að ég hefði notið tjáningar­frelsis til að segja það sem ég sagði. Samt var máls­kostnaður fyrir Hæsta­rétti felldur niður. Þessi af­greiðsla er enn­þá undar­legri en sú sem varð í Lands­rétti.

Niður­staðan er þá sú að valds­maðurinn mikli er látinn komast upp með að stefna mér fyrir dóm og valda mér á þremur dóm­stigum veru­legum kostnaði, sem ég fæ ekki borinn uppi, þó að ég sé sýknaður á öllum þremur á þeim for­sendum sem ég hafði byggt mál­flutning minn á frá upp­hafi. Þessi af­greiðsla er rök­studd með því að veru­legur vafi hafi verið á að ég hafi farið út fyrir mörk tjáningar­frelsis með um­mælum mínum um þennan dóm. Um­mæli mín hafi verið bein­skeytt og hvöss eins og komist er að orði í for­sendum dóms Hæsta­réttar.

Engu máli skiptir fyrir af­greiðsluna á kröfunni um máls­kostnað hvort um­mælin teljast hafa verið hvöss eða ekki. Það sem máli skiptir er að hinn á­frýjaði dómur var á báðum á­frýjunar­stigum stað­festur og það með sömu rök­semdum og þar greindi og ég hafði teflt fram frá upp­hafi. Á­frýjandi hafði á­frýjað á tvö dóm­stig til að fá dómi hnekkt. Það tókst honum ekki. Hann fær ekki einu sinni breytt rök­semdum dómanna. Ég er samt látinn bera háan máls­kostnað af þrá­hyggju hans við mál­sýfingarnar. Það er líka hrein­lega ó­satt að um­mæli mín hafi verið eitt­hvað sér­stak­lega bein­skeytt og hvöss. Þetta geta allir séð sem vilja með því ein­fald­lega að lesa við­komandi kafla í bók minni. Á­stæðan fyrir þessu orða­gjálfri í dóminum er aug­ljós. Dómararnir voru annað hvort hræddir við valds­manninn eða kenndu í brjósti um hann vegna þeirrar niður­lægingar sem hann hafði orðið fyrir með af­greiðslu málsins á þremur dóm­stigum. Þeir sömdu því svona orða­gjálfur til að rétt­læta undan­drátt sinn á að dæma mér þann rétt sem mér bar í þessu efni.

Ég full­yrði að enginn Ís­lendingur, annar en ógnandi valds­maðurinn, hefði losnað undan skyldu til að greiða gagn­aðila sínum máls­kostnað í máli þar sem eins háttar og í máli Bene­dikts gegn mér.

Hvað borgaði hann sjálfur?

Svo er annað at­riði sem þjóðin á kröfu til að fá upp­lýsingar um. Það vakti at­hygli mína og lög­manns míns að lög­maður Bene­dikts lagði ekki fram neinar upp­lýsingar fyrir dóminn um kostnaðinn sem Bene­dikt hefði haft af mál­sýfingum sínum. Hvernig stóð á því? Því hefur verið hvíslað í eyra mér að Bene­dikt hafi ekki greitt lög­manni sínum fyrir málastappið. Lög­maðurinn hafi verið sólginn í að fá að reka þetta mál fyrir hæsta­réttar­dómarann, þar sem í því fælist lang­þráð upp­hefð fyrir hann. Að mínum dómi er nauð­syn­legt að Bene­dikt Boga­son for­seti Hæsta­réttar upp­lýsi um þetta með ná­kvæmri greinar­gerð studdri greiðslu­gögnum um máls­kostnaðinn sem hann hafði af málinu. Grun­semdir um að þessi valda­mikli dómari þiggi á laun greiða frá starfandi lög­mönnum í landinu eru ekki á­sættan­legar. Þess vegna verður hann undan­bragða­laust að gefa þessar upp­lýsingar.