„Þetta er svo sjokkerandi fyrir þann sem horfir á og hlustar, að agndofa, er sennilega eina orðið sem nær að lýsa áhrifunum,“ segir Margrét Kristín Blöndal, betur þekkt undir nafninu Magga Stína, í áhrifamiklum pistli um mál egypsku fjölskyldunnar sem er í felum hér á landi.
Í pistlinum, sem birtist á Vísi eftir hádegið, beinir hún orðum sínum einkum að Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra og viðbrögð þeirra í málinu en einnig að ríkisstjórninni í heild.
„Fyrir tilstuðlan íslenskra stjórnvalda þar sem fremstar fara þær Katrín Jakobsdóttir og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dragandi á eftir sér “barnamálaráðherrann” Ásmund Einar Daðason. Þau treystu sér í þann skítaverknað að ábyrgjast og standa þétt á bak við höfnun við beiðni fjölskyldunnar um hæli. Hundsuðu allar mannúðlegar forsendur sem þeim var ítrekað bent á að væru til staðar, gerðu það án þess að blása úr nös,“ segir Magga Stína og bætir við að bæði Katrín og Áslaug Arna hafi haft vald til að koma í veg fyrir brottvísun fjölskyldunnar. En þær hafi kosið að gera það ekki.
„Þær höfnuðu þessum börnum og foreldrum þeirra þrátt fyrir mótmæli fagaðila, Umboðsmanns barna, Skólastjórans í skólanum sem þau sækja, sem og mótmæli almennra borgara.“
Magga Stína veltir fyrir sér hvernig þetta sé hægt.
„Það liggur beinast við að spyrja þær ráðherrana beint?
Katrín og Áslaug Arna; Hvernig gátuð þið fengið það af ykkur gera þetta?
Hvernig gátuð þið fengið það af ykkur að hanga eins og hundar á roði á ákvörðun sem er svo ómannúðleg og ógeðfelld að nánast öll íslenska þjóðin er í áfalli?
Vera má að þið hafið hlotið strangt uppeldi í ykkar pólitísku flokkum en varla hafið þið alveg glatað öllu persónulegu sjálfstæði, eða hvað?
Þið, sem manneskjur í æðstu valdastöðum, getið tekið sjálfstæðar ákvarðanir. Það er ykkar hlutverk.
Þið eruð æðsta vald.“
Þá segir Magga Stína það hafa verið „óhugnanlegt“ þegar Katrín svaraði því til að mál fjöskyldunnar hefði ekki verið tekið sérstaklega fyrir á ríkisstjórnarfundi í síðustu viku. Sagði hún að málefni hælisleitenda hefðu verið rædd heildstætt.
„Hvernig ræðir maður heildstætt um fjölskyldur á flótta, Katrín? Þegar tugir stóðu hrópandi fyrir utan ráðherrabústaðinn og afhentu dómsmálaráðherra fimmtán þúsund nafna undirskriftarlista, þá lætur þú eins og engin ástæða hafi verið til að gefa því nokkurn gaum á fundinum en ríkisstjórnin öll hafi bara spjallað almennt um “málefni” hælisleitenda.“
Þá segist hún velta fyrir sér hvernig undanfarnir dagar hafi verið hjá ríkisstjórninni og hvernig komandi dagar verða. „Skottist þið bara í vinnuna og heilsið félögunum hressilega? Hvernig er ykkur innanbrjósts? Finnið þið til einhverrar vanlíðunar? Er eitthvað sem truflar hugarró? Ég spyr því ég er forvitin um mannlega hegðun,“ segir hún.
Hér má lesa pistil Möggu Stínu í heild sinni.