Mælt með kaffi gegn krabbameini

Fjórir bollar af kaffi á dag og þaðan af meira getur mögulega dregið verulega úr líkum á endurkomu ristilkrabbameins eftir árangursríka meðferð. Þetta er meginniðurstaða rannsóknar vísindamanna við Dana-Farber Krabbameinsmiðstöðina í Boston, sem birt var í vikunni.
 

Rannsóknin tók til 1.000 sjúklinga, sem allir höfðu gengist undir skurðaðgerð og lyfjameðferð vegna þriðja stigs ristilkrabbameins. Hún leiddi í ljós að 42% minni líkur eru á því að ristilkrabbameinið taki sig upp aftur að lokinni meðferð hjá þeim sem neyttu fjögurra eða fleiri kaffibolla á dag, sem innihéldu 460 milligrömm af koffíni eða meira, en hjá þeim sem ekki drukku kaffi. Að auki virtust þriðjungi minni líkur á því að þeir dæju úr krabbameini  eða ótímabærum dauða af völdum annarra banvænna sjúkdóma yfir höfuð.

Þeir sem drukku tvo til þrjá bolla af kaffi á dag nutu einnig góðs af, þótt í minna mæli væri en hjá mestu svelgjunum. Ef marka má rannsóknina, hverrar niðurstöður birtust í fagtímaritinu Journal of Clinical Oncology, er hins vegar lítið gagn í því að drekka bara einn bolla á dag. Rannsakendur þykjast fullvissir um að heilsusamleg áhrif kaffiþambsins megi rekja til koffínsins fremur en annarra efna í kaffinu.