Þriggja vikna föstur á eins árs fresti, jafnvel hálfs árs fresti, gera það að verkum að líkaminn blómstrar svo um munar að sögn Þórhöllu Andrésdóttur sjúkraþjálfara sem leggur áherslu á mikilvægi þess að hreinsa líkamann reglulega.
Þórhalla var gestur heilsu- og útivistarþáttarins Lífsstíls á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í gærkvöld, en þar lýsti hún því hvaða áhrif þessar þriggja vikna föstur hafa á líkamann. Strax eftir eina viku af föstunni taki fólk eftir útlitsbreytingunni; þroti og bjúgur hverfi, augun ljómi öðruvísi en áður og að tveimur vikum liðnum verði líkamsburður fólks allur annar; liðverkir minnki eða hverfi, höfuðverkir heyri jafnvel sögunni til og húðin verði sléttari.
Ástæða þessa alls er að sögn Þórhöllu að líkamninn hreinsar sig á meðan á föstunni stendur. Hann hvílist af öllum þeim efnum úr daglegri fæðu sem hann á erfitt með að vinna úr eða erum honum einfaldlega óholl.
En fastan sem Þórhalla boðar er engin píningg, ef menn skyldu halda svo. Fólk heldur áfram að borða á þessari föstu, en - og það skiptir öllu máli; aðeins hreint fæði. Öll matvara með innihaldslýsingu þar sem fleiri en eitt náttúrulegt efni er upptalið fer á bannlistann. Allur sykur og mjólkurvara fer á þennan lista og allar tilbúnar sósur, en eftir stendur allt grænmeti, ávextir, hnetur, fræ og spírur, hreint kjöt og fiskur og brún hrísgrjón fyrir nú utan lýsi og ólívuolíur sem er sjálfsögð og upplögð fita til að smyrja líkamann á meðan á föstunni stendur. Raunar mælir Þórhalla með einum gúlsopa af ólivuolíu fyrir svefninn allt árið um kring.
Og koffein og kaffi er bannað. Þórhalla segir að flestir eigi erfiðast með að hætta kaffiþambinu og finni jafnvel til fráhvarfseinkenna, en kaffi komi vel að merkja ójafnvægi á í sýrubúskap líkamans.
Hún segir fólk verða háð svona föstum og fjölmargir sem byrji og falli fyrir þeim byrji að fasta reglulega á hálfs árs fresti. Það sé nefnilega svo að það sé ekki nóg að taka til í bílnum og bílskúrnum reglulega, eða þurrka af og ryksuga inni í íbúðinni; það þurfi og verði að hreinsa líkamann reglulega eins og allir þeir finni sem prófi að fasta með þessum hætti.
Lífsstíl er hægt að nálgast í heild sinni á hringbraut.is, svo og klippur úr þættinum.