Aðalmeðferð fór fram í bótamáli Tony Omos gegn íslenska ríkinu í gær. Lögreglurannsókn gegn honum var felld niður eftir sjö og hálft ár.
Fréttablaðið fjallar um málið í dag en Tony, sem er frá Nígeríu, krefst fjögurra milljóna króna í bætur með vöxtum rúm tíu ár aftur í tímann vegna málsins. Hann var sakaður um að stunda mansal og var trúnaðarupplýsingum um hann lekið úr innanríkisráðuneytinu. Málið átti eftir að draga dilk á eftir sér og leiða að lokum til þess að Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra sagði af sér og aðstoðarmaður hennar, Gísli Freyr Valdórsson, var dæmdur í skilorðsbundið fangelsi í svokölluðu lekamáli.
Tony sagði fyrir dómi í gær að lögreglumenn hefðu verið með hund og hann verið mjög hræddur þegar gerð var húsleit á heimili hans í Keflavík í byrjun september 2012.
Tony, sem er frá Nígeríu, krefst 4 milljóna króna í bætur, með vöxtum rúm tíu ár aftur í tímann, vegna málsins en hann var sakaður um að stunda mansal og trúnaðarupplýsingum um hann lekið úr ráðuneytinu. Lögreglurannsóknin gegn Tony var hins vegar felld niður.
„Ég mátti ekki tala við neinn. Mig dreymdi mjög mikið og ég hélt að fólkið þarna vildi drepa mig,“ sagði Tony að því er fram kemur í Fréttablaðinu, en hann var í gæsluvarðhaldi og einangrun í fimm daga áður en hann var yfirheyrður. Lögreglurannsóknin gegn Tony var svo felld niður.
Lögregla sagði fyrir dómi að það hafi þótt grunsamlegt að sjö nígerískar konur, annað hvort ófrískar eða með börn, kæmu frá sama svæðinu til Íslands á ellefu mánaða tímabili. Sumar þeirra voru með tengsl við Tony sem var þá hælisleitandi hér á landi.
Nánar er fjallað um málið í Fréttablaðinu í dag en Tony er í dag búsettur í Reykjanesbæ, ásamt konu og þremur börnum og starfar hann sem leigubílstjóri.