Nú er dauðafæri fyrir þá sem ætla að flýta sér á akstri milli byggðarlaga á Íslandi. Allar löggur lasnar og flestar heima. Eftirlit ekkert, enginn með radarinn. Vonandi verður ástandið ekki misnotað en vitaskuld er viðbúið að glæpahneigðir muni einmitt nú láta til skarar skríða. Bæði bófar og löggur eru nú í bófaleik.
Ef löggurnar væru svona óvart lasnar hefðu þær vitaskuld ekki látið vita af því opinberlega. Þær eru í kjarabaráttu. Með lögum skal land byggja er slagorð löggunnar. Á sama tíma ýtir hún undir lögbrot eða stendur sjálf að þeim, reynir líka að hámarka skaðann með því að upplýsa að landið sé eftirlitslaust. Ráðuneytið telur að aðgerðirnar sjálfar séu beinlínis lögbrot. Fjöldi stúlkna og drengja sem ætluðu sér að verða löggur þegar þau yrðu stór hafa síðan í morgun uppgötvað að það gæti verið meira upp úr því að hafa að ræna hús!
Verkfallsrétturinn er vopn sem flestir aðrir en launagreiðendur og atvinnurekendur telja einn mikilvægasta rétt hins sístritandi launamanns. Kjarabarátta er grafalvarlegt mál og flestir styðja mannsæmandi laun löggunnar og baráttu þeirra. Enginn veit það þó betur en löggan að menn eru ábyrgir gjörða sinna. Sá sem keyrir fullur getur átt von á þungum viðurlögum. Lögga sem ýtir undir lögbrot eða þykist eitthvað annað en hún er mun þurfa að axla ábyrgð og glíman við almenningsálitið getur bæði unnist og tapast – ef mikið er lagt undir.
Lösnu löggurnar þurfa líka að velta fyrir sér hvaða umræðuáhrif gætu orðið ef samfélagið fyndi sáralítið fyrir hópveikindum þeirra. Halda mætti fram að það besta sem gæti komið fyrir samfélagið væri að almenningur fyndi lítið sem ekki neitt fyrir gerviveikindum lögreglumanna í dag.
Skyldu löggurnar hafa pælt í því?