Fundarhöld Vinstri grænna um helgina og meintur ágreiningur innan forystu flokksins er sýndarmennska frá upphafi til enda. Vel skrifað leikrit í þremur þáttum eftir Steingrím J. Sigfússon. Þriðji og síðasti þáttur er hafinn, formleg stjórnarmyndun með Framsókn og Sjálfstæðisflokki. Leikritinu lýkur innan viku.
Katrín Jakobsdóttir verður forsætisráðherra, fyrst Sósíalistaleiðtoga á Íslandi og það í boði Valhallar og Kaupfélags Skagfirðinga. Þar með nær hún meiri árangri en en nokkrum forvera hennar hefur tekist. Hún er að slá við kempum á borð við Brynjólf Bjarnason, Einar Olgeirsson, Ragnar Arnalds, Magnús Kjartansson, Lúðvík Jósefsson, Svavar Gestsson, Ólaf Ragnar Grímsson, Margréti Frímannsdóttur og Steingrím J. Sigfússon. Formaðurinn sem Skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins uppnefndi “Skatta-Kötu” fyrir síðustu kosningar og Davíð Oddsson hefur afgreitt sem “gluggaskraut”, er nú að verða forsætisráðherra með tilstyrk Sjálfstæðisflokksins. Ætla má að einhverjir af gömlum leiðtogum Sjálfstæðisflokksins muni senn snúa sér við í gröf sinni.
Það er löngu búið að ákveða þessa stjórnarmyndun og semja um allt sem máli skiptir. Dagfari greindi frá því þann 9. nóvember sl., fyrir fjórum sólarhringum, að samkomulag hefði náðst milli þessara þriggja flokka um kyrrstöðustjórn undir forsæti Katrínar. Sjá meðfylgjandi:
Það sem hefur gerst síðan er eintóm sýndarmennska til heimabrúks fyrir Vinstri græna sem þurfa að réttlæta fyrir kjósendum sínum að þeir ætli í eina sæng með spillingaröflunum úr Sjálfstæðisflokknum en flestir kjósenda Vinstri grænna greiddu þeim atkvæði gagngert til að koma í veg fyrir að Panama-Prinsar og fjárglæframenn héldu völdum í landinu. Vinstri grænir verða vændir um svik af hálfu kjósenda sinna sem munu trúlega refsa flokknum við fyrsta tækifæri. Forystu Vinstri grænna þykir betra að geta sagt við kjósendur sína að þetta hafi verið afar erfið ákvörðun en flokkurinn hafi viljað sýna “ábyrga” afstöðu og látið “þjóðarhag” ganga fyrir flokkshagsmunum. Þess vegna var nýkjörinn varaformaðu, sem er ekki einu sinni þingmaður, látinn hreyta ónotum í formann Sjálfstæðisflokksins og segja að Vinstri grænir muni ekki samþykkja hann sem ráðherra. Enginn tekur mark á þessu en þetta er ætlað til að gleðja ósátta kjósendur flokksins. Þá var ákveðið á þingflokksfundi í dag að tveir þingmenn Vinstri grænna væru á móti gagngert til að gefa ákvörðun þingflokksins visst yfirbragð.
Það hlýtur að vera afar ónotaleg tilhugsun fyrir kjósendur Vinstri grænna að vita af þingmönnum flokksins í brúðarsæng með tveimur helstu andstæðingum sínum, fulltrúum sérhagsmuna á Íslandi gegn hagsmunum almennings.
En hvað gerir maður ekki fyrir völd og mjúka ráðherrastóla?
Að mestu er búið að skrifa og samþykkja stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar: Engar kerfisbreytingar til umbóta eru fyrirhugaðar, stjórnarskráin verður óbreytt, ekkert verður dregið úr ríkisrekstri. Bætur til öryrkja og eldri borgara og styrkir til óarðbærra verkefna á landsbyggðinni munu stóraukast, auknu fé verður varið til samgöngumála og heilbrigðisþjónustu, eins og reyndar allir stjórnmálaflokkar eru sammála um, en skattar verða ekki hækkaðir strax. Útgjaldaveislan verður greidd í þetta sinn með því að taka eigið fé út úr viðskiptabönkunum sem eru í eigu ríkisins. Það er einskiptisráðstöfun sem mun þá ekki koma að notum oftar.
Þessi ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hefur alla burði til að endast í heilt ár.
Hér er því spáð að hún falli í tengslum við fjárlagagerð vegna ársins 2019 en þá kemur að skuldadögunum.
Rtá.