Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu hefur með tölvupósti til fréttamanns Hringbrautar staðfest að farið verði yfir kvörtun vegna Bigga löggu.
Hringbraut sendi Sigríði Björk fyrirspurn í morgun þar sem spurt var hvort eða hvernig embættið myndi taka á því að Sveinn Andri lögmaður sagðist í gær fara fram á afsögn Bigga lögga vegna færslu Bigga á eigin fésbókarsíðu eftir að sýknudómurinn var kveðinn upp í svokölluðu hópnauðgunarmáli. Hringbraut var að berast svar við fyrirspurninni frá lögreglustjóra og segir þar orðrétt:
\"Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur móttekið erindi sem varðar ummæli sem starfsmaður Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu viðhafði á sinni einkasíðu á samfélagsmiðli, vegna dóms sem féll nýverið í kynferðisbrotamáli sem embættið hafði til áður haft til rannsóknar.
Farið verður yfir atvik og metið hvort að gripið verði til frekari aðgerða af hálfu embættisins. Ekki er hægt að tjá sig frekar um málið að svo komnu.\"
Færsla Bigga löggu á fésbók var eftirfarandi: \"Þó svo að réttarkerfið nái ekki utan um brot ykkar þá gerir samfélagið það. Ég þekki ykkur ekki og ekki heldur stúlkuna og ég veit ekki nákvæma málavexti. Ég þarf þess heldur ekki. Það sem ég veit er að þið notuðuð líkama sextán ára ölvaðrar stúlku. Þið skiptust á að ríða henni og tókuð það upp á myndband. Hvað voruð þið að hugsa? Sama hver aðdragandinn var eða hver sagði hvað að þá áttuð þið alltaf að vita að þetta væri svo kolrangt. Þó svo að dómstóll hafi sýknað ykkur þá þurfið þið að lifa við þennan verknað ykkar. Samfélagið hefur dæmt ykkur seka.“