Lofað upp í ermi annarra

Náttfari skrifar
 
Að lofa opinberum fjármunum upp í ermina á öðrum er með því lágkúrulegasta sem stjórnmálamenn bjóða kjósendum upp á.
 
Því miður gerist það með vaxandi þunga þegar dregur að kosningum og loforðakapphlaup þeirra byrjar. Um þetta hefur verið rætt í áratugi og sýnt hefur verið fram á að kosningaárin eru yfirleitt skelfileg fyrir efnahagsstöðu flestra ríkja. Þetta er ekki séríslenskt fyrirbæri. Öðru nær. Stjórnmálamenn um allan heim eru því miður óábyrgir í aðdraganda kosninga.
 
Við sáum pínlegt dæmi um þetta fyrir skemmstu þegar ráðherrar kynntu aukna styrki til íþróttastarfs í landinu frá og með næsta ári. Styrkir í afrekssjóði ÍSÍ frá ríkinu eru nú 100 milljónir króna á ári. Nú á að auka þá um 100 milljónir á næsta ári og svo áfram. Á næsta ári verður núverandi ríkisstjórn ekki við völd. Það verða aðrir sem þurfa að efna þetta kosningaloforð. Spyrja má hvers vegna núverandi ríkisstjórn var ekki búin að auka þessa styrki enda hefur lengi verið full þörf á að gera betur á þessu sviði. Það er ekki trúverðugt að hlaupa til þegar 3 mánuðir eru eftir af valdatíð stjórnarinnar og ákveða útgjöld sem aðrir stjórnmálamenn þurfa að afla fjármuna til að standa við.
 
Það var pínlegt að horfa á þá kjánalegu uppstillingu sem sviðsett var í Laugardal fimmtudaginn 28. júlí að viðstöddum 3 ráðherrum og formanni ÍSÍ. Forsætisráðherra, fjármálaráðherra og menntamálaráðherra stilltu sér upp fyrir myndavélarnar til að reyna að hala inn velvild fyrir gjafmildi á almannafé í aðdraganda kosninga  út á aukinn styrk á næsta ári upp á 100 milljónir króna. Illugi Gunnarsson var nánast klökkur yfir góðvilja ríkisstjórnarinnar þegar hann ræddi við fjölmiðla um þetta stórvirki. Þrír ráðherrar á bak við 100 milljón króna hækkun á næsta ári – 33 m. kr. pr. ráðherra – sem þeir munu ekki einu sinni þurfa að hafa fyrir að útvega því þá verður önnur ríkisstjórn tekin við fyrir löngu. Svo á að hækka þessa styrki um 100 milljónir á ári, alls upp í 400 milljónir á ári. Vel að merkja í tíð næstu ríkisstjórnar.
 
Trúa þessir menn því að kjósendur sjái ekki í gegnum svona sláandi loddaraskap?
 
Við eigum eftir að sjá mörg svona dæmi á næstu vikum í aðdraganda kosninga. Ráðherrar verða á harðahlaupum út um allt land að sáldra opinberu fé til mismerkilegra verkefna og framkvæmda. Allt verður það gert í þeim tilgangi einum að freista þess að afla stuðnings á kostnað ríkisins. Það verður lofað fjárframlögum sem næsta ríkisstjórn þarf að standa við. Fráfarandi ríkisstjórn ætlar að njóta góðs af því sem næsta ríkisstjórn þarf að afla fjármuna til að geta staðið við. 
 
Dæmi um þetta eru yfirlýsingar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem gengið hefur aftur í stjórnmálum. 
Í viðtölum nú talar hann um afturvirkar hækkanir á bótum til elli-og örorkulífeyrisþega. Þegar stjórnarandstaðan lagði þetta til í fyrravetur þá afgreiddi Sigmundur málflutning þeirra sem “ómerkilega brellu” og “auma tilraun til popúlisma”. Þá var að vísu langt til kosninga. Nú kúvendir hann – enda stutt til kosninga.
 
Á næstu vikum skulum við fylgjast vel með ómerkilegum tilraunum stjórnmálamanna til að kaupa sér fylgi með opinberu fé. Skattgreiðendur þurfa að standa vaktina gagnvart þessu því þeir þurfa svo að borga kosningavíxlana á nýju kjörtímabili.