Útieldhús njóta vaxandi vinsælda og æ fleiri landsmenn kjósa að stækka heimilin sín út og nýta svæðið utandyra til að auka lífsgæði sín. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir borgarfulltrúi og eiginmaður hennar eru ein af þeim sem fannst frábært að geta stækkað heimilið með því að vera með útieldhús og pergólupall á útisvæðinu sem hefur aukið lífsgæði þeirra og fjölbreytni til muna enda miklir náttúruunnendur.
Sjöfn heimsækir Þórdísi Lóu, sem ávallt er kölluð Lóa, í útieldhúsið í þættinum í kvöld og fær að sjá útkomuna og njóta þeirra upplifunar sem svæðið býður upp á. „Við byggðum okkur þennan pergólupall og útieldhús árið 2020 í miðjum heimsfaraldri,“ segir Lóa. Þau hönnuðu sitt drauma útieldhús sjálf þar sem rómantíkin réð för. „Við vildum við hafa eldhúsið sveitó og heimilislegt þar sem húsið okkar er gamalt og hér er ekkert hornrétt.“
Veiðir og vinnur matinn sjálf
„Ég hef undanfarin ár aðhyllst slow food lífstíl og reyni þess vegna að rækta mitt eigið grænmeti og kryddjurtir. Veiði silung, lax, gæs og hreindýr og vinn matinn sjálf með mínu besta fólki og ætli áhuginn á útieldhúsi hafi ekki fæðst í kjölfarið af allskyns tilraunamennsku með það,“ segir Lóa.
Lóa segir að útieldhúsið hafi gjörbreytt matseldinni yfir sumartímann. „Matseldin hjá okkur frá því í maí flyst meira og minna út á pall og útí í útieldhús og garð og þar erum við yfir allt sumarið, það er alltaf gott veður í Árbænum, eða næstum því allavega, þannig að við notum aðstöðuna mikið allt sumarið.“ Lóa er mikill grillari og býður Sjöfn upp á dýrindis grillaða humarpitsu sem er hennar uppáhalds enda ilmurinn ómótstæðilega lokkandi af grillinu.
Lifandi og skemmtileg heimsókn í útieldhúsið hennar Lóu framundan í þættinum Matur og Heimili á Hringbraut í kvöld klukkan 19.00 og aftur klukkan 21.00. Missið ekki af Lóu grilla í útieldhúsinu þar sem töfrarnir gerast.
Hægt er að sjá brot úr þætti kvöldsins hér: