Karen Jónsdóttir, sem er að alla jafna kölluð Kaja, stofnandi og eigandi Matarbúrs Kaju á Akranesi er ávallt að þróa nýjungar. Nýjasta afurð Kaju eru átta eðal sælkeramolar fyrir þá sem vilja lífrænt og hollt. Við fengum Kaju til segja okkur frá tilurð þeirra. „Sælkeramolarnir eru fyrir þá sem vilja sætindi í hollari kantinum, sætindi sem uppfylla löngunina en eru samt sem áður góð næring fyrir sál og líkama. Mig hefur alltaf dreymt um að hafa fullan kaffihúsaskáp af alls konar sælkeramolum og hófst þróunarvinnan þegar kaffihúsið flutti á Stillholt 23 en þá gafst okkur loks tækifæri á að vera með kæliskáp. Sælkeramolar hafa komið fram ein af öðrum bara eftir því hvaða tíma ég hef haft. Við vorum að klára kókoskúluna okkar en hún er búin að fara í nokkra hringi í þróuninni.“
Sælkeramolarnir hennar Kaju bráðna í munni. Fréttablaðið/Anton Brink.
Forvitnilegasti og uppáhalds molinn er Fyllta daðlan
Hugmyndin á bak við molana var að gera hollari útgáfur af vinsælu sælgæti eins og Mars, Snickers og Bounty. „En út frá því urðu til karamellubiti, hnetusmjörsbiti og kókoskúla, bitar sem koma virkilega á óvart. Að auki fengu öðruvísi molar að fylgja með eins og Kaju biti sem við kölluðum lengi vel magnesíumstykki. En samsetning á þeim bita uppfyllir góðan skammt af magnesíum en þar erum við með avakadó, graskersfræ, fíkjur og 70% súkkulaði. Forvitnilegasti molinn og jafnframt minn uppáhalds er Fyllta daðlan. Daðlan er fyllt með tahini, hjúpuð með 100% súkkulaði og stráð UMAMI sjávarsalti yfir. En UMAMI sjávarsaltið inniheldur íslenskan þara sem gerir svolítið alveg sérstakt fyrir döðluna. Þetta því verður algjör bragðbomba.“
*Hægt er að fá öskjur með Sælkeramolum Kaju í Melabúðinni, Fræinu í Fjarðarkaup, Frú Laugu, Fiskkompaníi Akureyri og Matarbúri Kaju Akranesi.