Ljúffeng andalæri með Asian Fushion sósu sem trylla bragðlaukana

Við fengum Sjöfn Þórðar þáttastjórnanda þáttarins Matur og Heimili og fjölmiðlakonu til að gefa okkur uppskrift af kvöldverði sem á vel við yfir páskahátíðina. Hún er þekkt fyrir matarást sína og er annálaður matgæðingur sem elskar að halda matar- og sælkeraveislur fyrir fjölskyldu og vini. „Einn af mínum uppáhalds réttum er Confit de Canard eða andalæri á franska vísu með asísku yfirbragði. Ég á marga uppáhalds rétti en þetta er rétturinn sem mér finnst einstaklega ljúft að bjóða uppá á hátíðisdögum eins og páskum. Ég kaupi andalærin í niðursuðudós í Bónus ásamt öllu hráefninu sem þarf í meðlætið. Meðlæti með andalærinu er ég með sellerírótarmús, Asian Fushion sósu, koníakskaramelluðu epli og hunangsgljáðar regnbogagulrætur. Þetta er hin fullkomna samsetning með andalærinu og bráðnar í munni.“

Confit de Canard (andalæri)

1 dós andalæri (4 -5 andalæri í dós)

Byrjið á því að hita ofninn í 180°C gráður án blásturs. Takið andalærin upp úr niðursuðudósinni og andafitunni. Taka sem minnst af andafitunni með. Setjið andalærin í steikarfat eða eldfast mót og bakið í ofninum í um það bil 30 til 40 mínútur eða þar til þau verða gullinbrún og falleg á litinn. Þau eru mun girnilegri og fallegri með gullinbrúnum lit. Vert er að útbúa meðlætið á meðan öndin er að eldast í ofninum. Þetta snýst um að hita öndina upp og brúna en hún er fullelduð í niðursuðudósinni. Upplagt er að taka andafituna frá og eiga hana í matargerð, til dæmis er mjög gott að steikja upp úr fitunni kartöflur. Stundum er ég með nýtt smælki og nýti þá andafituna til steikningar á smælkinu.

M&H Andalæri SÞ.JPG

Guðdómlega ljúffeng samsetning sem bráðnar í munni.

Asian Fushion sósa

2 stk. chilli pipar saxaður (rauður chilipipar)

3 litlir hvítlaukar saxaðir ( eða 5 hvítlauksrif)

1 msk. röspuð engiferrót

2-3 tsk. andakraftur

1-2 dl vatn

1 dós kókosmjólk

Hálf flaska Housin sósa

2-3 msk. Marple sýróp

ólífuolía & íslenskt smjör til að steikja upp úr

Byrjið á því að bræða saman klípu af smjöri og ólífuolíu. Saxið hvítlaukana, chillipiparinn og raspið engiferrótina. Steikið saxaða hvítlaukinn, chillipiparinn og engiferrótina upp úr smjör- og olífublöndunni þar til þetta verður mjúkt. Bætið þá við 2-3 teskeiðum af andarkrafti ásamt hálfum bolla af vatni. Látið krauma í svolitla stund. Því næst bætið þið við kókosmjólkinni, Housin sósunni og sýrópinu og látið malla í dágóða stund. Má krydda með pipar eftir smekk.

Ef þið viljið meira magn, eða viljið þynna sósuna er hægt að bæta við soðnu vatni, kókosmjólk, jafnvel örlítið meira af Housin sósu.

M&H Sellerírótarmús SÞ.JPG

Sellerírótarmús að hætti Sjafnar

1 stk. sellerírót, afhýdd og skorin í teninga

2 stk. laukar, smátt saxaðir

ólífuolía

gróft salt

Hvítur pipar eftir smekk

2 dl rjómi

Afhýðið sellerírótina og skerið í teninga. Afhýðið laukana og saxið. Steikið sellerírótarteningana og laukin upp úr smá ólífuolíu á pönnu og kryddið til með grófu salti og hvítum pipar. Hellið rjómanum út á sjóðið þangað til að sellerírótin er orðin mjúk. Bætið meiri rjóma saman við ef ykkur finnst þess þurfa. Setjið blönduna síðan í matvinnsluvél og maukið. Músin á að vera meðal þykk og með fallegri áferð. Smakkið til með salti og pipar.

M&H karamellaserauðu epli SÞ.jpg

Sælkera epli að hætti Sjafnar

2 stk meðalstór græn epli

2 msk. sykur

2 tsk. kanill

Dass af koníaki – eftir smekk, má sleppa

Íslenskt smjör og/eða ólífuolía til steikingar

Byrjaði á því að flysja eplin og skera í báta. Gott er að nota svokallaðan eplaskera, þá fáið þið jafna og fallega bita. Steikið bitana upp úr smjöri/ólífuolíu. Setjið sykur og kanil saman við, gott að blanda sykrinum og kanil saman og búa til kanilsykur og sáldra síðan yfir eplin og toppið með dass af koníaki. Látið steikjast þar til eplin verða farin að fá karamellaseraðan brúnan lit og áferð. Það má sleppa koníakinu.

M&H Gulræturnar SÞ.jpg

Hunangsgljáðar gulrætur

1 poki íslenskar regnbogagulrætur

4 msk. hunang

2 msk. ólífuolía

4 rósmarín greinar (tvær fínt saxaðar og tvær til skrauts)

salt og pipar eftir smekk

spírur eða sprettur til skrauts

Byrjið á því að hita ofninn í 180°C gráður. Gulræturnar eru þvegnar vel og endar snyrtir, svo velt upp úr olíu og hunangi, kryddaðar með söxuðu rósmarín, salti og pipar. Síðan eru þær settar í eldfastmót og bakaðar í 30-40 mínútur eða þar til þær eru orðnar mjúkar í gegn. Berið fram á fallegum bakka og stráið svo spírum yfir þær og skreytið með rósmarín greinum eða því sem ykkur langar að framreiða þær með. Þið getið líka steikt gulræturnar ef það hentar ykkur betur, það er alls ekki síðra.

M&H Andalæri SÞ 10.JPG

Bragðbætir og til skrausts á andalærin

4-5 greinar Timian

Brúðarslör eða ætisblóm eins og Skjaldflétta

*Allt hráefnið fæst í Bónus.

M&H Andalæri í niðursuðudós SÞ.jpg

Hér er lúxus í dós - einfaldara getur það ekki verið.