Ljótukallarokk og sinfó!

Svona sinfóníutónleika hefur þú ekki séð áður, auglýsti Hof þegar kynntir voru tónleikar þungarokkhljómsveitarinnar Dimmu og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands.

Tvennir slíkir fóru fram í gærkvöld.

„Allt þetta fòlk hefur verið platað til að spila ljòtukallarokk,“ sagði söngvari Dimmu, Stebbi Jak, glaðhlakkalegur á facebook fyrir tónleikana og átti þá við hina 70 klassískt lærðu tónlistarmenn sem aðstoðuðu Dimmu á tónleikunum í gærkvöld. Það er áhugavert að tveir frændur af mývetnskum uppruna, Stebbi Jak og Gunnar Ben, einn af meðlimum Skálmaldar, hafi báðir haslað sér völl í tveimur af áhugaverðustu rokksveitum samtímans. Báðir hafa eftir gærdaginn upplifað sambræðslu sinfóníuhljómsveitar og harðasta rokks. Skálmöld reið á vaðið eins og löngu er frægt orðið en samt voru Dimmu-tónleikarnir í gærkvöld og Skálmaldargiggin með Sinfóníuhljómsveit Íslands um margt ólík.

Það sem sameinaði var að í báðum tilvikum varð galdurinn, að brjóta niður veggi, brúa bil milli menningarheima sem áður þóttu ósamrýmanlegir. Hátimbruð elíta taldi áður þungarokk beinlínis tónlist djöflulsins. Fyrirlitning grasrótarinnar gagnvart því sem lengi var kallað „æðri tónlist“ var á hinn bóginn algjör. En ekki lengur. Það var sönn fegurð að sjá allt þetta ólíka tónlistarfólk með allan þennan ólíka tónlistarbakgrunn sameinast í dásamlega merkingarþrungnum og fögrum hávaða í gærkvöld, þungum takti, fylla salinn frá gólfi og upp í rjáfur af ótal hljóðfærum og kórsöng. Ég get ekki orða bundist, verð að skrifa um þessa upplifun. Massívt sánd! Og takk, allir hljóðfæraleikarar og söngvarar, takk fyrir hvern einn einasta tón og takk fyrir að fara í gegnum menningarmúrinn.

Rétt er að nefna sérstaklega þátt Þorvaldar Bjarna í útsetningu og stjórnun sem og framlag Grétu Salóme sem fór hamförum með fiðluna sína og söng í einu lagi. En mest mæddi á Dimmu sjálfri, trommum, bassa, gítar og söng. Þeir voru þeir sjálfir og ekki hægt að biðja um nokkuð stærra af hálfu listamanna. Jafnt ungir sem aldnir í hópi áhorfenda fyllltu hjörtu sín af angurværð þegar rólegu lögin voru spiluð. Þess á milli „head bangaði“ gamalt fólk í hröðum takti. Kynslóðabilið hvarf, þessi upplifun að vera þarna var um margt ólýsanleg. Best er að reyna ekki að lýsa henni frekar, en kannski geta þeir sem þarna voru sameinast um það sem fyrr segir, að bil hafi verið brúuð, veggir brotnir niður.

Það er svo gaman að lifa tíma þegar það gerist, því við lifum líka tilhneigingar á öðrum sviðum til að múra hvert annað inni, útiloka einn hóp frá öðrum.

Nú eru aðrir tímar – í tónlistinni að minnsta kosti. Því ber að fagna. Þökk sé íslenskum sinfóníuhljómsveitum, sunnan heiða sem norðan, þökk sé rokkhljómsveitum og þökk sé skapandi fólki sem fær hugmyndir, grípur þær og framkvæmir.

Hof stendur sannarlegu undir því heiti að geta kallast menningarskapandi stóriðja þessa dagana.