Ljósabekkjanotkun fer hraðminnkandi

Ljósabekkjanotkun landsmanna hefur hrunið á síðustu árum samkvæmt könnun átakshóps á vegum Krabbameinsfélags Íslands. Notkunin á meðal 18 ára og eldri var 30% fyrir áratug, en ný könnun í ár sýnir að 12% landsmanna nota bekkina að einhverju ráði..   


Krabbameinsfélagið hefur frá því árið 2004 rekið samstarfsverkefnið "Hættan er ljós" ásasmt Geislavörnum ríkisins, Embætti landlæknis og húðlæknum undir átaksheitinu „Hættan er ljós“ en markmið þess er að upplýsa foreldra og forráðamenn fermingarbarna um að börn eigi ekki að fara í ljós. Stefna hópsins er að stuðla að skynsamlegri hegðun landsmanna í sól og að draga enn frekar úr almennri notkun ljósabekkja.


Árlega er gerð könnun á vegum átakshópsins á ljósabekkjanotkun landsmanna og eins og fyrr greinir sýnir síðasta könnun mjög minnkandi notkun ljósabekkja hér á landi og að fáir undir 18 ára aldri fari í ljósabekki. Í könnuninni var ennfremur spurt hvort viðkomandi hefði brunnið af völdum sólar eða ljósabekkja á síðastliðnum tólf mánuðum. Með bruna er átt við að roði myndist á húð ásamt því að sviði sé til staðar. Um 72% þeirra sem svöruðu höfðu ekki brunnið sem er nokkuð há tala í samanburði við tölur í erlendum rannsóknum og tengist ef til vill því hve útfjólublá geislun var lítil síðasta sumar vegna skýjafars.


Samkvæmt talningu Geislavarna ríkisins á fjölda ljósabekkja hefur þeim fækkað mjög mikið í Reykjavík. Fyrir níu árum voru þeir 114 en eru nú 66. Árið 1988 voru þeir yfir 200.


Krabbameinsfélagið er einnig í norrænu samstarfi um varnir gegn húðkrabbameini. Tíðni sortuæxla hefur farið vaxandi á Norðurlöndunum á síðustu 30 árum. Á Íslandi er tíðnin þó aðeins farin að lækka eftir að hafa verið hér einna hæst. Einn helsti áhættuþáttur sortuæxla er sólbruni og ljósabekkjanotkun. Ekki er ólíklegt að minnkandi notkun ljósabekkja eigi þátt í lækkandi tíðni. Ísland var fyrst Norðurlandanna til að setja lög um 18 ára aldurstakmark varðandi ljósabekki en nú hafa Finnland og Noregur bæst í hópinn. Danir og Svíar eru að vinna að því sama. Norræna samstarfið felst í því að fá ferðaþjónustuna, ferðaskrifstofur, flugfélög og fleiri í samvinnu um að bæta upplýsingar um öryggi í sólinni og hvernig skynsamlegt er að njóta sólarinnar á sem öruggastan hátt. Einnig hefur hópurinn með sér samstarf um fleira sem viðkemur sólarvörnum