Fiskur er herrans matur og fátt betra en að njóta góðra fiskrétta sem bragð er af. Hér erum við með einn ómótstæðilega góðan fiskrétt úr smiðju Berglindar Hreiðars köku- og matarbloggara hjá Gotteri og gersemar en hún er ofur hrifin af ofnbökuðum fiskréttum. „Ofnbakaðir fiskréttir eru að mínu mati mesta snilld. Þá er hægt að ganga frá öllu, leggja á borð og gera huggulegt á meðan hann bakast í ofninum.„ Berglind segist oft vera með hrísgrjón með ofnbökuðum fiski en hún hafi ekki áður sett þau í botninn á fatinu líkt og hér gert. „Ég gerði kjúklingarétt í bókinni minni með þessum hætti sem tókst mjög vel og ákvað að prófa þetta með fiskinn líka og mikið sem þetta var gott.“
Gratíneraður fiskur með hrísgrjónum
Fyrir 5-6 manns
- 250 g hrísgrjón (soðin)
- 900 g þorskhnakki
- ½ blaðlaukur
- ½ blómkálshaus
- ½ brokkolihaus
- 1 x piparostur
- 500 ml rjómi frá Gott í matinn
- 2 tsk. karrý
- 2 tsk. söxuð steinselja
- Salt, pipar og hvítlauksduft
- Pizzaostur frá Gott í matinn
- Ólífuolía og smjör
- Hitið ofninn í 180°C.
- Smyrjið eldfast mót (um 30×40 cm) með smjöri og dreifið úr hrísgrjónunum.
- Skolið, þerrið og skerið þorskinn í bita og raðið yfir hrísgrjónin, kryddið með salti og pipar.
- Skerið brokkoli, blómkál og blaðlauk niður, steikið upp úr vel af ólífuolíu og kryddið eftir smekk. Steikið þar til grænmetið fer aðeins að mýkjast og dreifið þá úr því yfir fiskinn í fatinu.
- Hellið um helming rjómans á pönnuna og rífið niður piparostinn. Hrærið þar til osturinn er bráðinn og smakkið til með karrý, steinselju og öðrum kryddum. Þegar osturinn er bráðinn má setja restina af rjómanum út á pönnuna og leyfa aðeins að malla.
- Hellið sósunni þá yfir fiskinn, setjið vel af rifnum pizzaosti yfir allt saman og bakið í um 30 mínútur.
- Gott er að bera fiskréttinn fram með nýbökuðu rúgbrauði og nóg af smjöri.
*Allt hráefnið fæst í Bónus.