Lituð hagkerfi hannesar hólmsteins

 DV greinir frá því að nú sé Hannes Hólmsteinn Gissurarson byrjaður að móta nýtt fjáröflunarverkefni fyrir sjálfan sig sem fengið hefur heitið BLÁA HAGKERFIÐ. Samkvæmt Hannesi á verkefnið að fjalla um nýtingu auðlinda hafsins og öryggi á hafi úti. Ekki fylgir sögunni hvort hann talar nú um að gera stuttmynd um efnið eða hvort hann lætur duga að rita lærðar greinar til birtingar í Þjóðmálum eins og áður hefur gerst.

 

Nokkrar umræður hafa spunnist um afdrif annars fjáröflunarverkefnis Hannesar sem hann nefndi GRÆNA HAGKERFIÐ. Vegna verkefnisins gekk hann á milli aðila og aflaði fjár til að gera stuttmynd um grænan atvinnurekstur sem sýna átti í sjónvarpi. Hannesi Hólmsteini tókst að fá samtök í atvinnulífinu til að leggja sér til þrjár milljónir króna til að fjármagna gerð stuttmyndar um efnið. Skemmst er frá því að segja að ekkert mun hafa spurst til umræddrar myndar þó liðin séu sjö eða átta ár frá því þessir miklu fjármunir voru lagðir fram. Hins vegar hefur Hannes Hólmsteinn ritað langa blaðagrein um málið og talið upp mikinn fjölda ritgerða sem hann hefur birt á ýmsum stöðum, eins og t.d. í Þjóðmálum, um græna atvinnustarfsemi. Svo virðist sem Hannes telji þau skrif jafngilda stuttri kvikmynd um efnið. 

 

Styrkir atvinnulífssamtakanna voru veittir til kvikmyndagerðar en ekki greinaskrifa. Vilhjálmur Egilsson og samstarfsmenn hans í húsi atvinnulífsins við Borgartún hafa greinilega sýnt Hannesi Hólmsteini of mikla flokkshollustu með því að greiða honum styrkina án þess að hann legði fyrst fram það verk sem þeir voru ætlaðir til.

 

Eftir að svona fór um GRÆNA HAGKERFIÐ hjá Hannesi er ekki við því að búast að nokkur vilji styrkja þá hugmynd frekar. Þá er lagt upp með nýtt fjáröflunarverkefni, BLÁA HAGKERFIÐ. Vonandi tekst Hannesi að afla sér fjármuna út á bláa litinn þó ýmsir kunni að vera vel á verði að þessu sinni.

 

Svo verður spennandi að fylgjast með því hvaða lit Hannes velur eftir að BLÁA HAGKERFIÐ hefur verið afgreitt í Þjóðmálum eða á öðrum vettvangi.