Gunnlaugur Arnar Ingason ungur og efnilegur bakari og kondítori verður hjá Sjöfn Þórðar þættinum Fasteignir og Heimili í kvöld:
Það eru ekki allir sem hafa kjark, þor og dug til að opna nýja veisluþjónustu þegar aðrir eru að draga saman. Gunnlaugur Arnar Ingason ungur og efnilegur bakari og kondítori, sem ávallt er kallaður Gulli, tók ákvörðun ásamt æskufélaga sínum sem virðist hafa hitt beint í mark og tryllt bragðlauka landsmanna síðan á sumardaginn fyrsta.
Gulli Arnar ætlaði að taka þátt í heimsmeistarakeppni kondítora í Taívan en í stað þess henti hann sér í djúpu laugina og opnaði á augabragði sína eigin veisluþjónustu með æskufélaga sínum, Böðvari og fór að töfra fram litríka sælkera eftirrétti og kökur fyrir heimilin og veislur. Sjöfn Þórðar heimsækir Gulla í eldhúsið hjá Veisluþjónustu Gulla Arnars og fræðist um tilurð þess að hann ákvað að verða bakari og kondítori.
„Ég hef ávallt haft áhuga á matreiðslu og matargerð og horfði mikið á matreiðsluþætti. Þegar ég var í framhaldsskóla var enginn neisti til staðar í því sem ég var að gera svo það fór svo að mamma hvatti mig til þess að fara í bakarann því hún vissi af þessum áhuga hjá mér,“ segir Gulli og sér ekki eftir því að hafa hlustað á hana.
Gulli er afar listrænn bakari og kondítori og er iðinn að töfra fram sælkera eftirrétti, makkarónur og kökur sem bráðna í munni og gleðja augað. Sjöfn Þórðar fær Gulla til að kenna áhorfendum að töfra fram guðdómlegan eftirrétt sem vert er að bjóða matargestum upp á. Gulli valdi sumarlegan og litríkan eftirrétt sem lætur engan ósnortinn. Þetta gæti verið sumareftirrétturinn í ár.
Missið ekki af einstaklega skemmtilegu innlitið í eldhúsið til Gulla í þættinum í kvöld.
Þátturinn Fasteignir & Heimili verður á dagskrá í kvöld klukkan 20.30 og er að jafnan ferskur, fjölbreyttur og með persónulegum blæ.