Ég skil ekki neitt í úrskurði Fjármálaeftirlitsins um sölu Landsbankans á Borgun. Lög voru brotin, verklagið í molum, eftir situr öskrandi reiður almenningur með föðurbróður fjármálaráðherra sigri hrósandi eftir viðskiptin. Hægt hefði verið að fá miklu fleiri krónur inn í ríkiskassann við söluna á Borgun en raun bar vitni (ef ekki hefði verið efnt til brunaútsölu fyrir valda vini).
\"En við ætlum samt ekki að sekta þig núna litli sæti Landsbanki eða láta neinn sem vinnur hjá þér gjalda fyrir ruglið af því að þú lofar að gera þetta aldrei aftur, prakkarinn þinn,\" segir Fjármálaeftirlitið.
Er það ekki efnisleg niðurstaða?
Botnar einhver í svona elítudekri?
Ég ók á 76 um daginn á vegi þar sem mátti bara aka um á 70 og fékk sekt. Ekki sagði neinn við mig: \"Ég skal ekki sekta þig núna ef þú lofar að fylgjast betur með hraðamælinum?\" Ég fékk bara sektina og þurfti að borga hana strax. Vorkenni mér ekkert fyrir það. Með lögum skal land byggja en með ólögum eyða. Hvaða skilaboð eru það að banki megi brjóta lög en ekki einstaklingar?
Á sama tíma og hinn almenni maður er gísl í höftum hér er eins og að ekki sé nokkur séns að bera út bankastjóra Landsbankans eða gera honum að sæta nokkurri ábyrgð þegar hann gerir í buxurnar. Örskömmu eftir bankahrun sem lagði hálft Ísland á hliðina umgengst Fjármálaeftirlitið Landsbankann eins og meðvirknissjúklingur ofbeldismann. Og enn sitjum við uppi með gráðugustu banka í heimi af því að þeir fá að fara sínu fram með því að mergsjúga almenning.
Til hvers er stofnun eins og Fjármálaeftirlitið? Ég bara spyr...
Björn Þorláksson