Dagfara finnst lítill spenningur fyrir prófkjörum Sjálfstæðisflokksins sem fram fara nú um helgina. Í Norð-Vestur kjördæmi er talið fullvíst að Haraldur Benediktsson alþingismaður vinni fyrsta sætið með yfirburðum og í Norð-Austur kjördæmi verður ekki haldið prófkjör heldur stillt upp lista á kjördæmisþingi þar sem Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur öll ráð í hendi sér.
Mjög rólegt er yfir prófkjöri flokksins í Reykjavík. Öll spenna hvarf úr prófkjörinu þegar ljóst var að hvorki Hanna Birna Kristjánsdóttir né Illugi Gunnarsson tækju þátt en þau skipuðu tvö efstu sætin í prófkjörinu fyrir síðustu kosningar og leiddu hvort sinn listann. Nú er 1. sæti frátekið fyrir Ólöfu Nordal ráðherra en enginn býður sig fram í það sæti nema hún. Þá er Guðlaugur Þór Þórðarson talinn öruggur með 2. sætið þó svo einhverjir gefi kost á sér í það sæti. Þeir sem eiga erfitt með að una því að Guðlaugur Þór muni leiða annan af tveimur listum flokksins í Reykjavík, hvöttu Sigríði Andersen til að gefa kost á sér í 2. sætið. Það gerði hún en hefur ekki fengið mikinn hljómgrunn. Hún gæti farið flatt á þessu og endað neðarlega í prófkjörinu.
Flestir gera ráð fyrir því að Brynjar Níelsson nái 3. sæti, Áslaug Arna því 4. og að Birgir Ármansson endi í 5. Sæti.
Albert Guðmundsson, formaður Heimdallar, gæti komið þarna á eftir en hann er frambærilegur ungur maður, jafnvel bjartasta von flokksins í langan tíma. Þá er talið að Ingibjörg Óðinsdóttir, varaþingmaður, hafi talsverðan byr.
Sama gildir um prófkjör flokksins í Kraganum sem fram fer um næstu helgi. Ekki er mikill áhugi. Bjarni Benediktsson og Jón Gunnarsson eiga tvö efstu sætin vís. Erfitt er að segja til um hvernig muni raðast þar á eftir. Ekki er mikill áhuga á prófkjörinu og þykir flestum að það vanti fleira frambærilegt fólk til að taka þátt í því. Reynt var að fá þekkta og vinsæla einstaklinga til að vera með í prófkjörinu en það tókst ekki.
Hins vegar vantar ekki spennuna í prófkjör flokksins í Suðurkjördæmi sem fram fer þann 10. september. Þar er sótt að oddvita listans, Ragnheiði Elínu Árnadóttur ráðherra. Hún á í höggi við þrjá roskna karla úr Vestmannaeyjum, þá Ásmund Friðriksson alþingismann, Árna Johnsen fyrrverandi þingmann og Pál Magnússon þáttastjórnanda og Samfylkingarmann. Þeir hafa allir verið duglegir að halda fundi í kjördæminu og látið vita af sér. Þeir hafa mætt vel í jarðarfarir og erfidrykkjur í kjördæminu, hvað þá íþróttaviðburði. Þetta er ósköp eðlilegt því engir vita betur en Eyjamenn að þeir fiska sem róa.
Í Suðurkjördæmi getur allt gerst þó hallast Dagfari að því að Ragnheiður Elín haldi 1. sætinu.