Það vekur athygli hve áhugi gesta á landsfundi Sjálfstæðisflokksins var lítill á að taka þátt í vali formanns og varaformanns. Talsmenn flokksins hafa gert mikið úr því að þessi fundur sé “fjöldasamkoma” þar sem yfir 1.200 manns mæti og taki þátt í störfum fundarins.
Það kemur svo fram í upplýsingum sem flokkurinn sendi frá sér að einungis 700 landsfundarfulltrúar af þeim 1.200 sem um ræðir völdu að taka þátt í kosningu um formann og varaformann flokksins. Það hlýtur að valda vonbrigðum og leiðir í ljós að trúnaðarmenn flokksins víðsvegar um landið eru ekkert spenntir fyrir forystu flokksins þegar þeir sýna slíkt tómlæti við sjálfa kosningu forystunnar.
Landsfundur flokksins vakti litla athygli að þessu sinni enda fer Sjálfstæðisflokkurinn sífellt minnkandi. Gamlir burðarásar í Sjálfstæðisflokknum eins og Styrmir Gunnarsson kvarta undan því að enn víki flokksforystan sér undan því að “gera upp við hrunið” eins og Styrmir orðar það. Hann er mjög ósáttur við þá niðurstöðu og telur að hún muni leiða til enn minnkandi vægis Sjálfstæðisflokksins í stjórnmálum Íslendinga.
Heimildarmenn á vettvangi fundarins halda því fram að Davíð Oddsson hafi ekki mætt á landsfundinn. Sé það rétt, þá hlýtur það að teljast saga til næsta bæjar. Því verður varla trúað að formaðurinn fyrrverandi hafi alls ekki sýnt sig á fundinum en gæti auðvitað hafa skotist inn í Laugardalshöllina þó menn hafi ekki orðið hans varir með sama hætti og áður var þegar hópur já-manna var stöðugt í kringum hann á þessum fundum.
Það er margt sem breytist í tímans rás.
Rtá.