Umboðsmaður Alþingis hefur úrskurðað að Áslaugu Örnu ráðherra hafi verið óheimilt að setja ráðuneytisstjóra tímabundið í embætti eins og hún gerði. Ásdís Halla Bragadóttir var sett tímabundið og sækir nú um embættið þegar það er auglýst.
Með þessari ólögmætu setningu var verið að veita Ásdísi Höllu forskot á aðra umsækjendur sem ekki aðeins er óheiðarlegt heldur siðlaust að auki.
Athæfi Áslaugar Örnu er því miður í takti við margt sem Sjálfstæðisflokkurinn og núverandi ríkisstjórn hafa ítrekað gert í seinni tíð.
Flokkurinn ætlar Ásdísi Höllu embætti ráðuneytisstjóra, enda er hún úr innsta hring flokksklíkunnar. Hún er fyrrverandi bæjarstjóri í Garðabæ og var á sínum tíma formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna. Þá hefur hún um árabil setið í stjórn Morgunblaðsins með föður Áslaugar Örnu, Sigurbirni Magnússyni, sem gegnir þar formennsku.
Áslaug Arna hefur tamið sér hrokafullan stjórnunarstíl sem ráðherra. Þetta brot á reglum er bara eitt dæmi þess. Annað tilvik kallaði á harða athugasemd nýlega frá Ríkisendurskoðanda, þegar bent var á misnotkun hennar á björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar þegar hún sem dómsmálaráðherra lét þyrluna snúast með sig í tengslum við hestaferð á hálendinu sem tengdist embættisskyldum hennar ekki á nokkurn hátt.
Ráðherrann hefur svarað þessum ávirðingum embættismanna ríkisins með hroka og útúrsnúningum sem minna á framkomu ungra útrásarvíkinga fyrir hrun: „Á þetta – má þetta“ var haft eftir einum þeirra og urðu þau orð fleyg.
Áslaug Arna er hins vegar ekki eini ráðherrann sem hefur sýnt af sér hroka og yfirlæti í embættisfærslum sínum. Dæmin eru því miður mörg. Nýlega rifjaðist upp hvernig Lilja Alfreðsdóttir hegðaði sér gagnvart konu sem kærði hana vegna brots á jafnréttismálum og fékk Lilju dæmda seka um brot á jafnréttislögum við skipan ráðuneytisstjóra
Í stað þess að sýna iðrun og auðmýkt trylltist Lilja og notaði peninga skattgreiðenda óspart í málarekstur gagnvart konunni en tapaði málinu í Héraðsdómi.
Framkoma Lilju hefur vakið undrun og hneykslan margra. Hún hefur nú varið milljónum af skattfé þjóðarinnar í vonlausan málarekstur til að þjóna ólund sinni. Sem betur fer greip annar ráðherra inn í þegar málið lenti á borði hans, stöðvaði ruglið og lét greiða umræddri konu margar milljónir í bætur úr ríkissjóði og lauk málinu.
Ásmundur Einar Daðason gerði þar vel og snupraði Lilju Alfreðsdóttur með eftirminnilegum hætti. Framkoma Lilju er óásættanleg í þessu máli eins og reyndar mörgum öðrum málum. Framkoma hennar einkennist af valdhroka og sýndarmennsku. Eftir þessu er tekið og eðlilegt að spurt sé um framtíð hennar í stjórnmálum.
Ýmsir af ráðherrum núverandi ríkisstjórnar virðast illa fallnir til að fara með það vald og þá stöðu sem þeim hefur verið treyst fyrirtímabundið. Mun það hitta þá sjálfa fyrir þótt síðar verði.
Dramb er falli næst!
- Ólafur Arnarson