Svo virðist sem við fáum nýja útgáfu af stöðu þessa máls í hvert sinn sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar tjá sig um það. Fyrir tveimur mánuðum afgreiddi Alþingi lög í skyndi sem áttu að koma í veg fyrir að Ísland lenti á þessum lista. Ráðherrar lýstu því þá yfir að ekkert mætti stöðva framgang málsins enda yrði það mikið áfall að lenda á listanum.
Strax í kjölfarið kom í ljós að það reyndist engin vissa fyrir því að sú lagasetning myndi duga til. Og skömmu síðar lentum við á listanum. Þá lýstu ráðherrar stjórnarinnar því yfir að vera okkar þar myndi engin áhrif hafa og við ættum auk þess ekkert heima á þessum lista, það lægi í augum uppi. En þessu yrði kippt hratt og örugglega í liðinn enda stæðu aðeins fáein tæknileg mál útaf.
Síðan hafa okkur reglulega borist fréttir af því að vera Íslands á þessum lista sé að hafa talsverð og skaðleg áhrif. Nú síðast urðu Sparisjóðirnir að hætta að sinna erlendum millifærslum fyrir viðskiptavini sína. Þá er ótalin „óþarfa orðsporsáhætta“ sem Íslandi stafar af veru sinni þar, líkt og Seðlabankastjóri benti nýverið á.
Nú hefur skýrsla Dómsmálaráðherra um veru okkar á listanum verið birt. Það sem stendur upp úr í skýrslunni er að vera okkar á listanum sé fullkomlega verðskulduð. Hún stafi af miklum trassaskap um árabil og Ísland hafi einfaldlega glatað trúverðugleika sínum í þessum efnum.
Í kjölfarið varar dómsmálaráðherra síðan við óhóflegri bjartsýni um hvenær við losnum af listanum. Það var reyndar bjartsýni sem hún og samstarfsráðherrar hennar í ríkisstjórn hafa helst boðað hingað til.
En það virðist með þær yfirlýsingar eins og aðrar yfirlýsingar ráðherranna um þetta mál, það er lítið að marka þær þegar á reynir.