Línur skýrast: katrín verður forsætisráðherra, fyrst allra sósíalista

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum hafa Vinstri grænir, Sjálfstæðisflokkur og Framsókn náð samkomulagi um myndun ríkisstjórnar undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur. Með því verða merkileg spor mörkuð í stjórnmálasögu Íslands. Katrín verður fyrsti forsætisráðherra Vinstri grænna eða Alþýðubandalagsins í sögu þjóðarinnar. Sósíalisti hefur aldrei áður náð þessum árangri hér á landi. Það eru einnig mikil tímamót að það skuli vera Sjálfstæðisflokkurinn sem leiðir leiðtoga sósíalista til öndvegis í ríkisstjórn Íslands. Það segir meira en mörg orð um veika stöðu Sjálfstæðisflokksins sem hefur nú einungis 16 fulltrúa á Alþingi, jafnmarga og eftir kosningarnar 2009 í kjölfar hrunsins sem margir vildu kenna Sjálfstæðisflokknum um að miklu leyti.

 

Það gæti einnig gerst að Steingrímur J. Sigfússon verði valinn forseti Alþingis. Hann yrði þá fyrsti maðurinn í sögu Vinstri grænna sem hlotnaðist sá heiður. Guðrún Helgadóttir var forseti þingsins sem þingmaður Alþýðubandalagsins en Vinstri grænum hefur ekki enn verið treyst fyrir embætti forseta Alþingis.

 

Ekki er talið að mikill ágreiningur verði milli þessara þriggja Framsóknarflokka um að koma saman stjórnarsáttmála því samstaða er milli þeirra um kyrrstöðu í flestum málaflokkum. Þeirri afsökun verður beitt að stöðugleiki skipti mestu máli og því verði ekki ráðist í neinar breytingar sem unnt er að láta bíða. Þannig verður ekki hróflað við gjafakvótakerfinu, ekkert verður dregið úr tugmilljarðastyrkjum til landbúnaðar á hverju ári, treyst verður áfram á íslensku krónuna og ekkert gert varðandi gjaldmiðlamálin og ekki verður farið í breytingar á stjórnarskrá. Reynt verður að standa við eitthvað af kosningaloforðum varðandi heilbrigðiskerfið og samgöngumálin sem sitið hafa eftir og skattahækunum verður stillt í hóf miðað við þær hugmyndir sem Vinstri grænir kynntu fyrir kosningar.

 

Nýrrar ríkisstjórnar bíður það hrikalega verkefni að ná kjarasamningum við opinbera starfsmenn sem kynnt hafa mjög brattar hugmyndir um kjarabætur sem mundu væntanlega ganga yfir allan vinnumarkaðinn. Það gæti vakið upp verðbólgudrauginn að nýju og valdið gengisfellingum og óáran í anda gamalla tíma. Margir spá blóðbaði á vinnumarkaði. Ný ríkisstjórn fær enga hveitibrauðsdaga og fær kjaramálin í fangið af fullum þunga strax.

 

Þessi þriggja Framsóknarflokkastjórn er mynduð um völd enda þurfa formenn allra flokkanna á því að halda að komast að ríkisstjórnarborðinu. Katrín stendur ekki of vel innan VG eftir þau miklu vonbrigði sem kosningaúrslitin urðu þar á bæ. Sigurður Ingi þarf að sýna að hann geti komist til valda og gætt sérhagsmuna í sjávarútvegi og landbúnaði þó Sigmundur Davíð hafi hlaupið undan merkjum og Bjarni Benediktsson stendur stórskaddaður í brúnni hjá veikum, lúnum og særðum Sjálfstæðisflokki. Hann gæti ekki haldið velli á næsta landsfundi með Sjálfstæðisflokkinn utan ríkisstjórnar.

 

Það verður hins vegar afar sárt fyrir Bjarna Benediktsson að gefa forsætisráðherrastólinn eftir. Ætla má að hann verði ekki mjög sæll sem almennur ráðherra í ríkisstjórn formanns sósíalista og hann mun trúlega fá að heyra það óþvegið að hafa leitt Vinstri græna til öndvegis í ríkisstjórn Íslands í fyrsta sinn. Þá munu margir Vinstri grænir verða ósáttir með að fara í samstarf við Panama-prins og spillingarflokk höfuðandstæðinganna. Framsóknarmenn munu þó brosa út að eyrum því þeim er sama með hverjum þeir vinna svo fremi að þeir hafi völd. Grundvallarskoðanir hafa yfirleitt ekki truflað þann flokk mikið.

 

Samkvæmt heimildum verður verkaskipting og skipan helstu embætta svona:

 

!. Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis.

 

2. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

 

3. Svandís Svavarsdóttir menntamálaráðherra.

 

4. Lilja Rafney Magnúsdóttir félagsmálaráðherra.

 

5. Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra.

 

6. Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra.

 

7. Þórunn Egilsdóttir umhverfisráðherra.

 

8. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

 

9. Guðlaugur Þór Þórðarson ferðamála-og iðnaðarráðherra.

 

10. Þórdís Kolbrún Gylfadóttir samgöngu-og sveitarstjórnarráðherra.

 

11. Sigríður Andersen eða Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.

 

12. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.

 

Miðað við framangreinda verkaskiptingu fellur Jón Gunnarsson út úr rikisstjórninni og þingmenn Suðurkjördæmis fá ekki ráðherraembætti frekar en síðast. Kjördæmið hafði þó forseta Alþingis þá en Unnur Brá Konráðsdóttir var felld af þingi eins og kunnugt er. Páll Magnússon verður ekki ráðherra og mun trúlega ekki taka því vel.

 

Svo mun koma á daginn hvort þessi ríkisstjórn verður farsæl eða eins og ástlaust hjónaband.

 

Síðari kosturinn er líklegri.

 

Rtá.