Allir fimm þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sækjast áfram eftir þingsetu og takast því á í prófkjöri flokksins dagana 4. og 5. júní næstkomandi. Þá hafa að minnsta kosti fjórir til viðbótar boðið sig fram og sækjast eftir þingsætum af fullri alvöru. Ætla má að niðurstöður geti komið á óvart. Ljóst er að þingmenn eru órólegir vegna prófkjörsins og munu nýta tímann vel í þrjár vikur fram að prófkjörinu. Nú er vitað um níu frambjóðendur og þeim er öllum full alvara með framboðum sínum.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur mjög sterka stöðu í borginni og hefur byggt þar upp öflugan hóp stuðningsmanna sem leggja sig fram í prófkjörsbaráttunni. Ekkert bendir til þess að honum verði ýtt úr forystusætinu. Guðlaugur Þór hefur trú á Brynjari Níelssyni sem býður sig fram í annað sætið. Brynjar gæti náð því sæti. Þá þykir Diljá Mist Einarsdóttir, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, mjög öflugt framboð í þriðja sætið. Flokkurinn þarf á því að halda að tefla fram nýrri konu í öruggt þingsæti. Diljá er mjög vel kynnt innan flokksins og þykir vera bæði klár og frambærileg.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra ætti ekki að lenda neðar en í fjórða sæti. Birgir Ármannsson nær fimmta sætinu af gömlum vana og tryggir sér áframhaldandi þingsetu. Sigríður Andersen gæti lent í sjötta sætinu og Kjartan Magnússon í því sjöunda. Kjartan þykir mjög duglegur stjórnmálamaður og margir flokksmenn vilja trúlega þakka honum langa og farsæla þjónustu fyrir flokkinn í borginni. Varaþingmaðurinn Hildur Sverrisdóttir fær trúlega áttunda sætið. Erfitt er spá fyrir um gengi Friðjóns Friðjónssonar. Hann hefur verið áhrifamikill innan flokksins og náinn trúnaðarmaður formannsins. Ólíklegt þykir því annað en framboð Friðjóns sé með velþóknun Bjarna Benediktssonar. Þá má ekki gleyma að hann er fyrrverandi aðstoðarmaður Bjarna.
Í Suðvesturkjördæmi, eða Kraganum, er einnig mikil spenna innan Sjálfstæðisflokksins. Að sjálfsögðu mun Bjarni Benediktsson formaður leiða listann. En hvað gerist svo? Jón Gunnarsson ætti að ná öðru sætinu eins og var reyndin í síðasta prófkjöri. Flokksmaskínan mun leggja mikla áherslu á að kona eða konur nái góðum árangri en það hefur ekki tekist hjá flokknum í síðustu prófkjörum í kjördæminu. Bryndís Haraldsdóttir var færð upp í annað sæti síðast og hún býður sig fram í það sæti núna. Því miður hennar vegna verður að gera ráð fyrir að karlmenn raðist í efstu sæti listans í prófkjörinu nú.
Dómarinn Arnar Þór Jónsson varpaði sprengju inn í prófkjörið fyrir viku þegar hann tilkynnti um framboð sitt. Arnar hefur ritað fjölda greina sem hafa birst opinberlega. Hann er með ákveðnar skoðanir og hefur verið óhræddur að flagga þeim. Þannig var hann nokkuð fyrirferðarmikill í umræðu um þriðja orkupakkann í fyrra en skoðanir hans á málinu voru þveröfugar við stefnu forystumanna Sjálfstæðisflokksins. Arnar Þór er orðinn þekktur fyrir skoðanir sínar og gæti hæglega komið á óvart í prófkjörinu núna. Þá má ekki gleyma Vilhjálmi Bjarnasyni sem býður sig fram að nýju. Eftir síðasta prófkjör var hann færður niður um sæti til að rýma fyrir konu. Flokkurinn missti eitt þingsæti og Vilhjálmur féll þá út af Alþingi sem margir voru ósáttir við. Flokkurinn mun hafa lofað honum ýmsu til að bæta upp þann skaða en lítið hefur orðið úr efndum. Vilhjálmur á mikinn stuðning í kjördæminu og gæti hæglega náð langt í prófkjörinu núna. Röðin gæti orðið þessi: Bjarni, Jón Gunnarsson, Vilhjálmur, Arnar Þór. Þá kæmu tveir núverandi þingmenn þar á eftir, Óli Björn Kárason og Bryndís Haraldsdóttir en hvorugt þeirra næði inn á þing miðað við núverandi þingmannafjölda flokksins í kjördæminu.
Yrði niðurstaða prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Kraganum þessi, þá er viðbúið að gripið yrði í taumana til að rétta hlut kvenna. Það mundi valda miklum óróa meðal þeirra sem þyrftu að víkja og teldu á sér brotið.