Lína Móey gefst ekki upp: „Það er enn svig­rúm fyrir krafta­verk“

Lína Móey, eigin­kona fjall­göngu­mannsins Johns Snorra Sigur­jóns­sonar, segir að enn sé svig­rúm fyrir krafta­verk. Ekkert hefur spurst til Johns Snorra og tveggja fé­laga hans, Mu­hammad Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr, síðan á föstu­dag en þre­menningarnir voru þá ná­lægt tindi K2, næst­hæsta fjalls heims.

Um­fangs­mikil leit hefur staðið yfir undan­farna daga en enn sem komið er hefur hún verið árangurs­laus. Á­fram verður leitað í dag og eru líkur taldar á að C-130 her­flug­vélar verði notaðar við leitina en þær geta komist mun hærra en þær þyrlur sem hafa verið notaðar við leitina hingað til.

Lína Móey sagði á Face­book-síðu sinni í gær­kvöldi:

„Í hjarta mínu er hann krafta­verk og kemur hann til baka. Ég er ekki búin að gefast upp og veit að það er enn svig­rúm fyrir krafta­verk því vikan er ekki liðin, búðirnar hans munu standa til laugar­dags. Þeir sem þekkja John Snorra vita yfir hvaða styrk hann býr og vona ég að
fleiri þarna úti veiti mér byr undir þá vængi að reyna þar til er full­reynt,“ segir hún.