Mynd: Instagram/linabirgittasig
Lína Birgitta Sigurðardóttir samfélagsmiðlastjarna segist hafa barist við búlimíu frá aldrinum 13 ára til 24 ára. Viðurkennir hún að hafa kastað upp eftir hverja máltíð til þess að koma í veg fyrir að fitna.
Lína Birgitta opnaði sig um átröskunina við Völu Matt í Íslandi í dag á Stöð 2 í gær og Vísir greindi frá. Í dag er Lína Birgitta íþróttaþjálfari ásamt því að hanna sinn eigin íþróttafatnað.
„Búlimía er partur af átröskun sem virkar sem sagt þannig að þú framkvæmir uppköst og það yfirleitt eftir stórar máltíðir og líka litlar. Eins og ég var þá fékk ég mér kannski bara salat og fór samt og kastaði upp. Þetta var mín aðferð til þess að fitna ekki. Þegar þú ert orðin vön því að gera þetta þá getur maður í raun bara hallað sér fram og þá kemur maturinn út,“ sagði Lína Birgitta um veikindi sín.
Þá viðurkennir hún að sjálf hafi hún ekki áttað sig á því að hún væri með búlimíu heldur hafi vinkonur hennar bent henni á að hegðun hennar væri óeðlileg.
„Ég hélt að flestar stelpur væru að þessu til að fitna ekki en það er ekki þannig. Ég man þegar stelpurnar nefndu þetta við mig þá fór ég í svo mikla vörn, varð mjög reið og í raun brjáluð,“ segir Lína sem fékk aðstoð hjá Hvítabandinu á vegum geðdeildar eftir að hún áttaði sig á alvarleika ástandsins.
Lína Birgitta segist ekki átta sig á því hvaðan hugmyndin af uppköstunum kom en líklega hafi hún komið vegna þess að hún var þybbið barn.
„Ég var rosalega þybbin sem barn og fékk rosalega oft að heyra það. Ef maður elst upp við svona þá hugsaði ég bara hvað ég gæti gert til þess að vera ekki þybbin.“