Límið í ráðherrastólunum er sterkara en Jötungrip

Átök og illindi vaxa með hverjum degi á stjórnarheimilinu. Óhætt er að segja að þar „sé hver sáttarhöndin upp á móti annarri,“ svo vitnað sé í fræg ummæli frá gamalli tíð. Aðdragandi að atburðum þessarar viku er nokkur. Ágreiningur hefur verið að magnast milli stjórnarflokkanna, einkum milli Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna. Þann 9. júní var Alþingi sent í 110 daga sumarleyfi vegna þess að ekki var unnt að ná neinni samstöðu milli stjórnarflokkanna um stór mál sem biðu afgreiðslu. Fulltrúar stjórnarflokkanna gátu varla verið samtímis inni í sama herbergi. Slíkur var ágreiningurinn. Talið var vænlegast að senda þingið út í sumarið og freista þess að öldur lægði.

Það reyndist vera skammgóður vermir. Eftir ríkisráðsfund á Bessastöðum þann 19. júní, þar sem Jón Gunnarsson var settur út úr ríkisstjórninni gegn vilja sínum og fjölmargra flokksmanna, ávarpaði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fjölmiðla og talaði skýrt og ákveðið um útlendingamálin sem hann sagði vera komin í hreint óefni. Ríkissjóður réði ekki lengur við öll þau milljarðaútgjöld sem flóttafólkinu fylgdu og viðurkenndi ráðherrann að stjórnvöld hefðu misst öll tök á málaflokknum. Síðan kenndi hann alþingismönnum um hvernig komið væri. Það var hraustlega gert í ljósi þess að sjálfur hefur hann setið samfleytt í ríkisstjórn í 10 ár og flokkur hans farið með dómsmálaráðuneytið allan þann tíma. Sex dómsmálaráðherrar hafa gegnt embættinu á þeim tíma og nú var hinn sjöundi að bætast við – til að freista þess að halda á þessari heitu kartöflu. Bjarni gekkst ekki við þeirri ábyrgð sem hann og flokkur hans hlýtur að bera á þessum augljósa vanda. Formaðurinn fór ekki dult með að nú yrði að taka í taumana og koma böndum á útgjöld vegna flóttamanna.

Ljóst er að Bjarni var að tala inn í grasrót Sjálfstæðisflokksins en mikil óánægja hefur verið í flokknum með þróun þessara mála og reyndar margra annarra þar sem augljós ágreiningur hefur verið við Vinstri græna, flokkinn sem er á góðri leið með að missa allt sitt fylgi og er nú kominn niður í 5,6 prósenta stuðning samkvæmt nýjustu Gallup-könnun. Sjálfstæðisflokkurinn hefur einnig tapað fylgi en talið er að hann geti rétt hlut sinn með því að setja útlendingaóvild í forgrunn, komi til kosninga á næstunni.

Vinstri grænir tóku sneiðina til sín og mátu stöðuna þannig að Sjálfstæðisflokkurinn væri að koma sér upp vígstöðu til að geta farið fyrirvaralaust í kosningar. Katrín forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir eru báðar reyndir stjórnmálamenn og slóttugar ef á þarf að halda. Katrínu tekst yfirleitt að fela það eðli sitt en Svandísi síður.

Daginn eftir kastaði Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra og helsti bandamaður Katrínar, þeirri sprengju að banna hvalveiðar á grundvelli skýrslu um dýravelferð. Vinstri græn eru mótfallin hvalveiðum samkvæmt ítrekuðum landsfundarályktunum sínum en hafa dregið lappirnar í því að framfylgja þeirri stefnu á meðan flokkurinn hefur setið á valdastólum.

En á þriðjudaginn hrökk flokkurinn í gang og hóf afgerandi baráttu gegn hvalveiðum með því að Svandís Svavarsdóttir notaði vald sitt til að grípa inn í. Hér var um beint svar að ræða við orðum Bjarna Benediktssonar frá deginum áður.

Vinstri græn tefldu einnig fram sínu kosningamáli ef gengið yrði að kjörborði á næstunni.

Hér er um skyndiákvörðun að ræða sem þær Katrín og Svandís tóku, væntanlega með blessun Steingríms J. Sigfússonar sem enn þá heldur í taumana. Hvað sem fólk hefur að segja um hvalveiðar er varla hægt að deila um að Svandís braut reglur stjórnsýslulaga um meðalhóf þegar hún stöðvaði hvalveiðar degi áður en bátarnir áttu að leggja úr höfn og tugir manna voru þegar mættir til starfa í Hvalfirði. Vinnubrögð af þessu tagi eru óboðleg. Jafnvel andstæðingar Kristjáns Loftssonar viðurkenna það enda vandaði hann Svandísi ekki kveðjur í fjölmiðlum í gær og sagði að „öfgafullur kommúnisti stjórnaði matvælaráðuneytinu.“ Svandís hitti Sjálfstæðisflokkinn beint í hjartastað með þessari aðgerð enda er Kristján Loftsson og Hvalur hf. meðal helstu máttarstólpa Sjálfstæðisflokksins og hafa styrkt flokkinn og frambjóðendur hans með gríðarlegum fjárframlögum í gegnum tíðina.

Þá er spurt: Úr því að ágreiningur er svona augljós og illsakir milli VG og Sjálfstæðisflokksins komnar upp á yfirborðið, er þá unnt að halda þessu ríkisstjórnarsamstarfi áfram að óbreyttu? Það ætti ekki að vera hægt og eðlilegast væri að láta nú staðar numið, rjúfa þing og boða til kosninga. Vitað er að margir þingmenn og áhrifamenn í báðum flokkum vilja það. En þá kemur að ráðherrunum sjálfum, að ógleymdum Framsóknarflokknum sem stendur að mestu utan við þessi átök. Ráðherrarnir vilja ekki missa völdin, starfskjörin, ráðherrabílana og öll þau þægindi sem fylgja ráðherradómi. Þeir munu reyna að setja deilurnar eitthvað niður til að geta haldið völdum enn um sinn. Nú eru þingmenn og ráðherrar komnir út í sumarið, farnir til veiða eða í fjallgöngur eða til útlanda og vonast eftir því að ástandið batni og ró færist yfir sviðið. Ekki má gleyma því að límið í ráðherrastólunum er sterkara en ofurlímið Jötungrip eins og réttilega hefur verið bent á.

Vandinn er bara sá að ástandið mun ekki lagast af sjálfu sér. Ró getur færst yfir fram í júlí. En svo flýtur allur vandinn upp og þá mun draga til tíðinda. Ríkisstjórnin hefur engin tök á efnahagsmálunum, verðbólgunni, vaxtaokrinu, orkumálum, loftslagsmálum og löggjöf um vinnumarkaðinn til viðbótar við ágreiningsefnin vegna útlendingamála og hvalveiða.

Í lok árs eu svo lausir kjarasamningar á vinnumarkaði. Ástandið er ekki boðlegt. Þetta gengur ekki svona.

- Ólafur Arnarson.