Fjölmiðlar keppast við að spyrja Lilju Alfreðsdóttur utanríkisráðherra hvort hún ætli að bjóða sig fram til formennsku á móti Sigmundi Davíð á aukalandsfundi Framsóknar í ágúst og jafnframt hvort hún muni sækjast eftir þingsæti í Reykjavík.
Lilja fer undan báðum spurningum í flæmingi. Segist þó ekki muni bjóða sig fram gegn Sigmundi en svarar engu um formannsframboð ef tekst að koma vitinu fyrir hann þannig að Sigmundur dragi sig sjálfur í hlé.
Flestir sjá að Sigmundur Davíð verður að hætta í stjórnmálum ef Framsókn á að eiga einhvern möguleika í komandi kosningum. Sigmundur og hans nánustu eru á öndverðum meiði og því ætlar hann sér að halda áfram.
Það yrði draumastaða allra andstæðinga Framsóknar.
En hvers vegna getur Lilja ekki tilkynnt um að hún vilji leiða lista flokksins í Reykjavík?
Það er vegna þess að hún sér að Framsókn fengi engan þingmann kjörinn í Reykjavík suður eða norður og ekki í SV kjördæmi samkvæmt síðustu könnunum. Því skyldi hún taka þá áhættu að falla í kosningum þegar hún getur snúið lítt sködduð til fyrri starfa í seðlabankanum?
Ef hún kann að plotta eins og Alfreð Þorsteinsson pabbi hennar, þá fer hún ekkert nema með öruggar tryggingar. En þær eru ekki í boði hjá Framsókn í dag.
>
>