Í þessum dálki var spáð í líklega stjórnarmyndun út frá könnun Félagsvísindastofnunar sem Morgunblaðið birti laugardag. En þar sem fimm vikur eru til kosninga og einungis var um 46% þátttöku í könnuninni að ræða, er viðbúið að mjög margt muni breytast fram að kosningum.
Lítum á hvern þessara átta flokka um sig:
1. Vinstri grænir mælast í könnuninni með 30% og 22 þingmenn. Slík vinstri sveifla er óhugsandi í þeim mikla hagvexti sem nú ríkir á Íslandi. Margir fá nú útrás fyrir reiði og vonbrigði með því að svara með öfgafullum hætti í skoðanakönnunum. Sú verður ekki raunin í kosningunum. Þó er óhætt að reikna með góðum sigri VG sem gæti orðið 25% og 16 þingmenn.
2. Flokkur fólksins er enn lengra til vinstri en VG. Hann mælist nú með 9% og 5 þingmenn. Margir munu missa kjark til að kjósa flokkinn þegar á hólminn er komið. Sérstaklega ef alls konar lukkuriddarar fara í framboð fyrir hann eins og nú er rætt um.
Flokkurinn gæti samt fengið 7% atkvæða og 4 þingmenn kjörna.
3. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 23% í fyrrnefndri skoðanakönnun og fengi 15 þingmenn. Eins og venjulega verður rekinn hræðsluáróður og talað um stöðugleika. En sú tugga getur ekki virkað lengur því flokkurinn hefur ekki klárað kjörtímabilið í þremur síðustu ríkisstjórnum sínum. Stöðugleikatalið er því öfugmæli. Auk þess verða framboð flokksins í Reykjavík afar veik og fráhrindandi með Sigríði Andersen og Brynjar Níelsson ofarlega á listum.
Þrátt fyrir hamagang kosningamaskínu flokksins og virkni \"skrímsladeildar\" mun hann ekki fá nema sama fylgi og VG í kosningunum, 25% og 16 þingmenn.
4. Í skoðanakönnuninni var Pírötum spáð 10% fylgi og 6 þingmönnum. Hér er gert ráð fyrir að það haldist þannig í kosningunum. Píratar mega una glaðir við það.
5. Bjartri framtíð var einungis spáð 3% fylgi í skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar.
Í kosningunum mun þeim vegna betur og fá yfir 5% og 3 menn kjörna.
6. Í könnuninni mældist Samfylkingin með 8% og 5 þingmenn. Flokkurinn má þakka fyrir ef hann nær þeirri niðurstöðu í kosningunum. Ekki er að sjá að neinir sterkir frambjóðendur fari fram fyrir Samfylkinguna. Núverandi þingmenn flokksins vega ekki þungt gagnvart kjósendum. Gerum samt ráð fyrir 5 þingmönnum þeirra.
7. Viðreisn mældist með 6% í könnuninni.
Ástæða er til að ætla að Viðreisn styrki sig mikið í kosningabaráttunni, sérstaklega þegar formannsskipti hafa farið fram.
Þingmenn og ráðherrar flokksins eru allir öflugir og ættu að vinna fylgi þegar út í kosningabaráttuna verður komið. Gert er ráð fyrir að Viðreisn hljóti 11% atkvæða og 7 þingmenn kjörna.
8. Framsóknarflokkurinn er enn í tilvistarkreppu eftir tímabil Sigmundar Davíðs. Ekkert lát er á grimmum átökum í flokknum og hann er ekki líklegur til afreka í komandi kosningum. Gæti fengið 9% atkvæða og 6 þingmenn kjörna. Það er jafnvel enn minna en skoðanakönnunin sýndi.
Ef þetta yrði niðurstaða kosninga þá gætu VG og Sjálfstæðisflokkur myndað tveggja flokka stjórn með 32 þingmenn á bak við sig. Það yrðu þá söguleg svik við kjósendur beggja flokka af augljósum ástæðum. Verður að teljast nær útilokaður kostur.
Þá væri einungis unnt að mynda fjögurra flokka stjórn. En þar sem Bjarni Benediktsson hefur lýst því yfir að hann vilji ekki taka þátt í nema tveggja flokka stjórn, þá yrði ríkisstjórn mynduð án aðkomu Sjálfstæðisflokksins - alla vega meðan Bjarni situr sem formaður flokksins.
Vinstri grænir gætu þá myndað fjögurra flokka vinstri stjórn með Pírötum, Framsókn og Samfylkingu en hún hefði 33 þingmenn á bak við sig.
Eins gætu Vinstri grænir myndað vinstri-miðjustjórn með Framsókn, Samfylkingu og Viðreisn. Sú ríkisstjórn hefði 34 þingmenn á bak við sig.
Rtá.