Menn hafa leitað skýringa á bandalagi formanna núverandi stjórnarflokka. Bent hefur verið á að alger óþarfi var að endurnýja eldra stjórnarsamstarf sem nær yfir allt pólitíska sviðið og fletur stjórnmálin úr þannig að samið hefur verið um kyrrstöðu í fjölmörgum umbótamálum sem nauðsynlegt hefði verið að sinna af festu. Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa samtals 30 þingmenn og gátu því valið með sér einn af minni flokkunum til myndunar ríkisstjórnar. Þeir völdu Vinstri græna en ekki neinn hinna flokkanna sem ættu þó að standa þeim nær hvað varðar stefnumál. Eða eru öll stefnumál orðin svo útþynnt að ekkert skiptir lengur máli nema völd og ráðherrastólar?
Jafnvel þótt svo væri hefðu flokkarnir tveir átt að sjá sér leik á borði með því að losa sig við Vinstri græna og fá þar með nýjan forsætisráðherra. En er þá kannski ein skýringin fundin? Hermt er að Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson hafi ekki getað komið sér saman um hvor þeirra ætti að leiða ríkisstjórn ef Katrín hyrfi úr stjórn. Framsókn getur bent á að flokkurinn bætti við sig fimm þingmönnum og er sigurvegari kosninganna á meðan Sjálfstæðisflokkurinn tapaði fylgi en er þó ennþá stærsti flokkurinn og gæti heimtað embætti forsætisráðherra í ljósi þeirrar staðreyndar. Um þetta náðist ekki samstaða og því fær Katrín að vera límið í stjórninni enn um sinn.
En til er önnur og dýpri ástæða fyrir þessu. Pólitískir spekúlantar í Sjálfstæðisflokknum vöruðu við því að mynduð yrði miðju-hægri stjórn sem skildi alla vinstri flóruna eftir saman í stjórnarandstöðu því að með því gæti skapast grundvöllur til sameiningar allra vinstri flokkanna undir forystu Katrínar Jakobsdóttur sem nýtur ennþá mikilla vinsælda, þótt hætt sé við að þær vinsældir dali hratt úr þessu. Hún er í öllu falli eini leiðtoginn sem gæti sameinað vinstri flokkanna með svipuðum hætti og gerðist í borginni þegar R-listinn varð til á bak við persónu og vinsældir Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Samanlagt fylgi Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Flokks fólksins í síðustu kosningum var 31 prósent sem skilaði 20 þingsætum. Sé fylgi Sósíalistaflokks Íslands, sem fékk engan mann kjörinn á þing, bætt við er samanlagt fylgi 35 prósent. Sjálfstæðismenn telja þetta vera vissa ógnun og meta það öruggara að hafa Vinstri græna sín megin víglínunnar til að tryggja að engar þreifingar um sameiningu vinstri vængsins geti farið fram undir forystu Katrínar.
Bent hefur verið á að þessir þrír flokksformenn gætu litið á það sem heppilega stöðu að vera allir við völd enn um sinn ef til þess kæmi að þeir hættu stjórnmálaafskiptum á kjörtímabilinu, allir eða einhver þeirra. Betra er að stíga niður úr ráðherrastóli og kveðja sviðið þannig með stæl en að víkja af velli sem þingmaður.
Sigurður Ingi verður sextugur þann 20. apríl næsta vor. Þá hefur hann setið á þingi í 13 ár og vill trúlega kveðja á toppnum eftir góðan sigur í síðustu kosningum. Komi til þess má gera ráð fyrir að Ásmundur Einar Daðason taki við formennsku í flokknum. Hann er ótvíræður sigurvegari síðustu kosninga þegar hann flutti sig úr örygginu og vann sæti í Reykjavík sem flokkurinn var víðs fjarri að ná í kosningunum árið 2017.
Lengi hafa verið vangaveltur um að Bjarni Benediktsson sé orðinn hundleiður á stjórnmálum og vilji losna. Á næsta ári verður Bjarni 52 ára og hefur þá setið á þingi í 19 ár og gegnt formennsku í Sjálfstæðisflokknum í 13 ár við mjög erfiðar aðstæður og minnsta fylgi flokksins frá upphafi. Talið er að hann vinni að því að tryggja varaformanni flokksins stöðu formanns þegar hann hverfur frá. Skipun Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur í embætti utanríkisráðherra ku ætlað til að styrkja hana í sessi þótt draga megi í efa að það hafi verið klókindaleg ráðstöfun. Þegar Bjarni dregur sig í hlé má ætla að Guðlaugur Þór Þórðarson bjóði sig fram sem formaður flokksins og nái kjöri. Einu gildir hverjir aðrir kynnu að vera í framboði. Gildir það jafnt um núverandi varaformann og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, sem einhverjir telja að gæti átt erindi í formannskosningu í flokknum.
Katrín Jakobsdóttir verður 46 ára þann 1. febrúar 2022. Hún hefur þá átt sæti á Alþingi í 15 ár og gegnt varaformennsku eða formennsku í Vinstri grænum næstum allan þann tíma. Mikið hefur mætt á henni. Fullyrt er að hún hafi hug á að komast út úr stjórnmálum á Íslandi og í áhugavert starf erlendis. Bent hefur verið á UNESCO í París, en hana dreymir um að búa í borginni með fjölskyldu sína. Katrín lærði frönsku með öðru í Háskóla Íslands. Þá er hún grunuð um að horfa hýru auga til Bessastaða – annað hvort árið 2024 eða 2028 í kjölfarið á Guðna Th. Jóhannessyni núverandi forseta. Tíminn líður hratt ætli hún að draga sig í hlé áður en næsta skref verður stigið.
Loks má ekki gleyma því að allt bendir til þess að næsta ár geti orðið einstaklega róstursamt á íslenskum vinnumarkaði en kjarasamningar stórra stétta eru að losna og munu losna allt næsta ár og fátt sem bendir til þess að verkalýðsforystan muni nú koma til samninga með friðarkyndla á lofti. Átök á vinnumarkaði gætu fellt ríkisstjórnina.
- Ólafur Arnarson