Bryndís Þóra Jónsdóttir, móðir ungrar konu sem smálánafyrirtækin tæmdu bankareikning hjá í haust vegna skuldar frá árinu 2012, segist líta á starfssemi þessara fyrirtækja eins og neðanjarðarstarfssemi.
Hún segir Alþingi alveg hafa brugðist í þessum málum. Á sínum tíma hefði mikið verið rætt um aðgerðir, enda vitað að til dæmis fólk sem er mjög andlega veikt, festist oft í skuldafeni smálána. Sjálf sagði Bryndís að þótt smálánin væru aðeins 20 þúsund krónur að hámarki, væru þetta oftast mun hærri upphæðir. Fólk í kröggum freistIst til þess að taka smálán, en til þess að greiða lánið sé tekið annað smálán og þannig fari boltinn að rúlla.
Sjálf segist hún vita til þess að margar einstæðar mæður séu í laumi að redda sér með slíkum lánum, til dæmis til að geta keypt mat fyrir börnin sín eða lyf.
Í þættinum kom fram að ekkert þak er á þeirri heimild smálánafyrirtækja, hversu háa upphæð má skuldfæra af reikning lántakanda. Þannig nái heimildin til skuldarinnar, óháð því hversu vanskila- eða innheimtukostnaður er orðinn hár. Meira verður rætt um smálán og starfssemi þeirra í þættinum Ég bara spyr á Hringbraut.
Þátturinn verður endursýndur í dag og föstudagskvöldið klukkan 21.30.
Þáttinn má líka sjá hér á hringbraut.is.