Kynsjúkdómar hafa aukist á Íslandi síðustu misseri, væntanlega sakir minni notkunar á smokkum og minni árvekni bólfélaga en löngum áður, en athygli vekur sérstaklega að tilfellum sárasóttar hefur fjölgað að miklum mun frá því sem lengi hefur þekkst.
Þetta kemur fram í fræðsluþættinum Líkamanum sem er á dagskrá Hringbrautar í kvöld klukkan 20:00, en þar er að vanda svarað þremur áhugaverðum spurningum um starfsemi líkama og sálar.
Það er kvensjúkdómalæknirinn Ómar Sigurvin Gunnarsson sem bregst við spurningunni um fjölgun tilvika af kynsjúkdómum, en auk hans sitja þau Karl Andersen, hjartalæknir og Birna G. Ásbjörnsdóttir, næringarlæknir fyrir svörum í þættinum, Karl svarar spurningunni hvernig fólk á að umgangast hjartað sitt og Birna fjallar um áhrif saltaðs, feits og reykts matar á mannslíkamann, en hann er áberandi á borðum landsmanna um þetta leyti vetrar.
Líkaminn er í umsjá hjúkrunarfræðingsins Helgu Maríu Guðmundsdóttur og sjónvarpsmannsins Sigmundar Ernis Rúnarssonar og byrjar á Hringbraut klukkan 20:00 í kvöld.