Lífsreynsla: ég hreinlega brann út

\"Áður en ég vissi af var ég farin að skila 12 til 18 tíma vinnudögum dag eftir dag, tók sjaldan frí um helgar og mætti nánast aldrei á skólaskemmtanir hjá syninum, segir Þórunn Jónsdóttir, frumkvöðull í nýútgefinni bók, Toppstöðinni.

\"Vinnan göfgar manninn segir einhvers staðar og ég ætlaði sko ekki að vera hönkuð á því að leggja mig ekki fram“, segir Þórunn ennfremur í bókinni sem kom í verslanir fyrir fáeinum vikum en þar miðla yfir fjörtíu höfundar reynslusögum og praktískri þekkingu úr frumkvöðlaumhverfinu og atvinnulífinu. Vonandi verða sögur þeirra lærdómur fyrir þá sem lesa, hvatning fyrir einhverja til að elta drauma sína og henda öllum ótta við mistök út í hafsauga.

\"Áður en ég vissi af var ég komin til New York borgar í viðskiptahraðalinn Techstars og tímarnir tólf orðnir átján eða svo. Ég tók mér þó auðvitað frí á sunnudögum því ég ætlaði nefnilega ekki að brenna út aftur. Eftir mánuð í borginni sem aldrei sefur uppgötvaði ég að ég hafði ekki séð neitt nema Times Square og það eingöngu vegna þess að skrifstofan okkar var á næsta götuhorni“, segir Þórunn.

Þórunn vinnur með sprotafyrirtækjum og skapandi einstaklingum að ýmsum verkefnum sem ráðgjafi, samstarfsaðili og framleiðandi. Í greininni fjallar hún um mikilvægi jafnvægis milli fjölskyldu og áhugmála og vinnu til að viðhalda andlegri heilsu. Upphaflega var vinnudaginn 9 til 5 sem breyttist hægt og rólega í það að vera frá 8 til miðnætis. Í uppsveiflum gekk það vel en í niðursveiflum var það kvöð sem var til þess að á endanum brann hún út enda er ekki hægt að segja að slíkt vinnufyrirkomulag sé sjálfbært. 

Hún hafði á þessum tíma hreinlega tengt sjálfsmynd sína við fyrirtækið. Þegar hún hitti aðra frumkvöðla spurðu þau ekki hvert annað hvernig þau hefðum það, þau töluðu aldrei um það sjálf  heldur hvernig fyrirtækin gengu. Þau voru fyrirtækin. 

\"Frumkvöðlar gantast stundum með að maður sé ekki frumkvöðull fyrr en maður hefur fengið taugaáfall. Ég hvet þig til að vera frumkvöðullinn sem fær ekki taugaáfall. Af því það er ekkert töff við það að vinna sig í kaf. Það er mun aðdáunarverðara að vera í andlegu og líkamlegu jafnvægi. Að vita hvenær er kominn tími til að hægja á sér. Að setja eigin vellíðan í forgang. Þá fyrst geturðu kallað þig árangursríkan frumkvöðul.“, segir Þórunn að lokum.