Þú fitnar á ef þú borðar á kvöldin, sykur gerir börnin ofvirk og kolvetni eru fitandi. Allt eru þetta mýtur um mataræði sem ekki eiga við rök að styðjast. Lífsstílsvefurinn Web MD tók saman nokkrar mýtur sem áhugavert er að kynna sér.
Þú fitnar á að borða á kvöldin
Þessi fullyrðing á ekki við rök að styðjast enda fer holdafar okkar eftir því hvort við innbyrðum fleiri eða færri hitaeiningar en við brennum. Það er þó ekki þar með sagt að það sé mælt með því að belgja sig út á kvöldin áður en farið er í háttinn. Það getur haft neikvæð áhrif á meltinguna og nætursvefninn að fara saddur eða södd í rúmið.
Kaffi er ekki gott fyrir þig
Rannsóknir hafa þvert á móti sýnt að kaffi er meinholt sé þess neytt í hóflegu magni. Er þá miðað við tvo til þrjá bolla á dag. Kaffi inniheldur andoxunarefni sem þykja góð fyrir heilsuna. Þá hafa rannsóknir bent til þess að það dragi úr líkum á að fá sykursýki 2, gallsteina, Parkinson‘s-sjúkdóminn og jafnvel einhverjar tegundir krabbameina. Mikilvægt er þó að huga að hitaeiningunum enda þykja hitaeiningaríkir kaffidrykkir, til dæmis með rjóma eða sýrópi, notið vaxandi vinsælda á undanförnum árum. Svart og sykurlaust er líklega ákjósanlegasti kaffidrykkurinn.
Þeim mun minni fitu sem þú borðar, þeim mun betra
Það er ekki að ástæðulausu að ketómataræðið hafi notið vinsælda á undanförnum árum. Mataræðið byggist að miklu leyti á því að innbyrða holla fitu og takmarka neyslu kolvetna að nær öllu leyti. Dæmi eru um einstaklinga sem náð hafa frábærum árangri á þessu mataræði og þá er ekki bara verið að tala um minni kílóafjölda. Það skiptir þó máli hvernig fitu við borðum. Almennt er mælt með mjúkri fitu, sem til dæmis má finna í hnetum, fiski, avókadó. Fólk er hins vegar hvatt til að sniðganga mettaða fitu og transfitu, en þessar tegundir fitu má til dæmis finna í sælgæti, kleinuhringjum, kexi og frönskum kartöflum svo eitthvað sé nefnt.
Sykur gerir börnin ofvirk
Óhóflegri sykurneyslu er stundum kennt um þegar börnin eru með læti og fara ekki eftir fyrirmælum. Þetta á ekki við rök að styðjast enda eru engar rannsóknir sem benda til þess að óhófleg sykurneysla ýti undir ofvirkni hjá börnum og geri þau á einhvern hátt óþekk, til dæmis í barnaafmælum þar sem gleðin er oft mikil. Það er þó ekki sykurinn sem gerir þetta að verkum heldur má frekar rekja ástæðuna til þátta í umhverfi barnanna.
Íþróttamenn þurfa haug af próteinum
Það er í raun engin þörf á að úða í sig próteinstykkjum eða próteinsjeikum til að ná einhverjum árangri í ræktinni. Hefðbundið mataræði inniheldur nóg af próteinum. Lykillinn að stærri vöðvum og betra úthaldi eru stífar æfingar í bland við mataræði sem inniheldur nóg af hitaeiningum. Það hefur sýnt sig að gott er að fá sér eitthvað próteinríkt í gogginn fljótlega eftir æfingu en það er ekki þar með sagt að gott sé að úða í sig próteinum daginn út og daginn inn.
Kolvetni eru fitandi
Nei, það eru ekki kolvetnin sem eru fitandi heldur magnið sem þú borðar. Ef við innbyrðum fleiri hitaeiningar en við brennum þá fitnum við. Hér getur þó skipt máli hvernig kolvetni við borðum því þau eru ekki öll eins. Sum hækka blóðsykurinn hratt og örva insúlínframleiðslu á meðan önnur valda ekki jafn miklum viðbrögðum í líkamanum. Það er því betra að halda sig við flókin kolvetni (grænmeti, kornmeti) en einföld kolvetni (sykur og matvæli með viðbættum sykri).