Mitt starf hefur verið stöðugur slagur

 Í ríflega 60 ár hefur Arnar Jónsson staðið á leiksviðinu, fyrir okkur hin. Í ítarlegu viðtali við Hringbraut ræðir þessi ástsæli leikari eigin feril, sorgina, gleðina, listina, fegurðina, pólitíkina og útgeislunina.

Það er föstudagsmorgunn á Akureyri. Arnar er nýkominn norður til að leika í Sveinsstykki Þorvaldar Þorsteinssonar. Það verk var skrifað sérstaklega fyrir Arnar þegar hann hélt upp á sextugsafmæli sitt fyrir um 12 árum. Það er dimmt yfir, regndropar falla mjúklega fyrir utan gluggann. Við hittumst, tökumst í hendur og fáum okkur sæti á kaffihúsi. Dumbungur úti sem fyrr segir en Arnari fylgir gamalkunn birta. Það er eins og lýsi af hinum 72ja ára gamla höfðingja, þjóðin þekkir það ljós. Fáir íslenskir leikarar standast enda Arnari snúning þegar kemur að útgeislun.

Við byrjum nokkuð hressilega.

„Mitt starf hefur verið stöðugur slagur við pólitíkina, slagur við áherslur í uppeldis- og menntakerfinu. Nú lifum við svo efnislega tíma, svo mikla veraldarhyggju að materíalisminn er allt lifandi að drepa,“ segir Arnar þegar ég spyr hvort hann sé pólitískur maður.

„Mennskan og öll sköpun á erfitt uppdráttar,“ bætir hann við og orðin lifa nokkra stund eftir að þau falla, líkt og svo oft í leikhúsinu. Ég velti fyrir mér hvort Arnar sé enn mótaður af þeirri sögu sem hann sagði síðast í Býr Íslendingur hér?, leikverki sem sett var upp í Samkomuhúsinu á Akureyri fyrir skemmstu. Þar lék Arnar Leif Muller sem lifði af vítistvist í þýskum útrýmingarbúðum. Leikverkið talar sérstaklega inn í samtímann vegna aðgreiningar trúarbragða og menningar og þá ekki síst í tengslum við sýrlenska flóttamenn. Við eigum eftir að ræða ómennskuna síðar, m.a. þann órétt sem kerfisbundið hefur verið framinn á fötluðu fólki. Þjóð getur verið meðsek með því einu að aðhafast ekki. Hið illa þrífst ef gott fólk aðhefst ekki, sagði Burke.

70 aðalhlutverk að baki

En hvar skal hefja för þegar afla skal hráefnis í stutt viðtal fyrir Internetið og meira en 60 ára leiklistarsaga eins kunnasta leikara þjóðarinnar er undir? Kannski á örlitu starfságripi. Arnar á að baki um 70 aðalhlutverk í leikhúsum á Íslandi, mestan part í atvinnuleikhúsum. Ekki er rými til að fjalla um þann stóra feril en nefna má ódauðleg aðalhlutverk Arnars eins og í Gíslinn eftir Brendan þegar Arnar var um tvítugt. „Þá varð þessi strákur heimsfrægur á einu andartaki á Íslandi,“ segir Arnar, brosir og horfir út um gluggann. Það mætti einnig minnast á frammistöðu hans í Galdra Lofti, Kaj Munk, Krummagulli, einu fyrsta umhverfisverkisleikverki sem sett var upp hér á landi og kannski ekki síður Skollaleik þar sem Þorleifur Kortsson fór hamförum, þar sem maðurinn er gagnrýndur harðlega vegna skammsýni sinnar gagnvart náttúrunni, Don Kíkóta, Pétur Gaut, Lé konung. En þó er allt að því ósanngjarnt að tína sumt til en sleppa öðru.

Arnar lækkar röddina þegar hann rifjar upp, að þegar hann lék í verki sem kallaðist hér á landi Abel Snorko og er eftir Éric-Emmanuel Schmitt, voru líkindi með hans raunverulega lífi og hjá þeirri persónu sem hann túlkaði á sviðinu. Leikritið fjallar um nóbelshöfund í bókmenntum sem kaus einangrun á eyju í Norðurhöfum. Hann gengur svo langt að skjóta á þá sem reyna að heimsækja hann. Einn daginn tekst þó sendiboða að færa rithöfundinum þær fréttir að sú manneskja sem hann hafði elskað mest hafi látist úr krabbameini. Við tekur sorgarferli hjá rithöfundinum einangraða. „Á þessum sama tíma gekk ég einnig í gegnum svipað sorgarferli þar sem dóttir okkar hafði fengið brjóstakrabbamein og var það ansi þungbært að ganga í gegnum sorgarferlið, hundrað og eitthvað sinnum á sviðinu,“ segir Arnar. Við þegjum saman nokkra stund á eftir.

Arnar segist vera að loka hringnum með sýningu sinni í Samkomuhúsinu um næstu helgi. Hring sem hófst fyrir ríflega sex áratugum þegar hann steig fyrst á leiksvið hjá Leikfélagi Akureyrar þá 10-11 ára gamall. Fyrsta hlutverkið var að leika Hans í Hans og Grétu. Það var ekki tilviljun að hann fór svo ungur að láta af sér kveða, leikhúsáhuginn var órofa tengdur uppvextinum. Faðir Arnars, Jón Kristinsson, lék sjálfur mikið auk þess að vera af og til formaður leikfélagsins. Mamma hans Arnþrúður Ingimarsdóttir var frábær eftirherma og seldi miða í leikhúsið á heimilinu.

„Ég dróst einhvernig veginn sjálfkrafa að sviðinu. Grét úr mér augun þegar ég sá föður minn drepa besta vin sinn í Mýs og menn. Eitt af því sem laðaði mig að þessari töfraveröld var lyktin í leikhúsinu, ég man lyktina vel þótt liðin séu sextíu ár. Hún bar svo sterkan keim af förðunardótinu sem þá var. Í dag eru notuð allt önnur efni og miklu minni lykt.“

Aðeins nokkrum árum eftir frumraunina á leiksviðinu, þá hafði Arnar leikið í nokkrum leikritum, lá fyrir að hann myndi helga líf sitt leiklistinni. Hann flutti suður, fór í leiklistarskóla og hann sér ekki eftir því. „Þegar ég hugsa aftur til upphafsins er ein tilfinning mjög sterk í minningunni, hvað mér leið óhemju vel á sviðinu. Á sviðinu varð ég ekki undir, sviðið varð mitt ríki, ég var ekki nema sautján ára gamall þegar ég fann að teningunum var kastað.“

Náðargáfan

Ég spyr hvort það hafi legið betur fyrir Arnari að leika sterk skapgerðarhlutverk og dramatísk hlutverk en önnur. Hann neitar því og rifjar upp margt húmórískt framtakið á leikferlinum til sönnunar um að ekki sé hægt að afgreiða hans feril sem slíkan. Svo ræðum við það sem kallað er karisma á sviði – eða útgeislun. Arnar segist sjá það strax þegar hann kynnist nýjum og ungum leikurum hvort þeir hafi karisma eða ekki. En karisma sé þó þeirrar náttúru að stundum sé það fyrir hendi en stundum ekki. Að því þurfi að hlúa en það geti ekki sprottið af engu.

„Það fer ekki milli mála að sumir hafa þetta en aðrir ekki. Þetta er náðargáfa sem er eins og einhver logandi eldur inni í manni, eitthvað sem maður veit að verður að fara vel með og hlúa að, annars slokknar það, kæfist, það er líka hægt að efla karisma og svo finnur maður með árunum, að eftir því sem áföllin verða fleiri í lífinu þá glæðist þessi logi. Hann nærist á reynslu, skilningi, samúð meðkennd og öllu slíku – og kannski líka mýkt og nærfærni.“

Leikarinn tekur sér andartaks málhvíld áður en hann heldur áfram, það er glampi í augum. „Þetta snýst í rauninni um að geta gefið öðrum þá hlutdeild í þér og þínum innstu sálarfylgsnum, gefa það sem kemur mest við þig sjálfan. Auðvitað eru myrkviðir hugar og sálar ýmsir, maður ratar ekki um þá alla  í eigin lífi en því meir sem þú þorir, því betra. Það er oft erfitt að ná þessu og beisla það rétt. Þáttur leikstjórans getur orðið mikill í að ná þessu fram en þetta getur aðeins orðið hjá þeim sem þetta er gefið. Leikstjórar vita að það getur verið erfið raun fyrir leikara að fara svo nærri sjálfum sér að áhorfandi hrærist til hláturs eða tára. Þetta gerist þegar ég kem við veikan blett hjá þér, hin sammannlega reynsla verður að vera fyrir hendi. Góður leikstjóri knýr leikarann áfram, knýr hann til að opna þessar launhelgar en þeir einir geta opnað fyrir þær sem hafa kynnst sársaukanum. Það er eins með þetta og myndlist og tónlist.  Hinir sléttu og felldu andlitsdrættir hinna alyngstu í bransanum eru ekki alltaf áhugaverðir eða spennandi. Í ungu fólki geta komið saman feiknmikil flinkheit, lífsgleði og ákafi, allt mjög áhugavert, en þegar þú ert kominn með listamann sem hefur raunverulega tekist á við lífið, sorgir þess og sigra, þá erum við að tala um allt aðra hluti, þá erum við að tala um eitthvað sem snertir dýpra.“

Trúir á hið góða

Ég spyr Arnar hvort hann sé trúaður. „Ja, ég veit það ekki, kannski er ég trúaður á einhvern máta en ég er ekki sérlega kirkjurækinn. Ég trúi á að það góða sé hrynjandi lífsins. Sú hrynjandi öll er verð tilbeiðslu og ég trúi að allt sem inniheldur fegurðina sé tibeiðsluvert, allt frá manninum niður í lítil blóm. Þess vegna svíður hún eins og fleinn í holdi öll þessi misnotkun bæði á náttúru landsins og mannslífum. Mér svíður misnotkun á fólki eins og t.d. þessi mynd sem dregin hefur verið upp af fötluðum konum sem hafa verið misnotaðar og ofsóttar lengi án þess að brugðist sé við því.  Við verðum að sporna við fótum, sjálfur hef ég enga lykla að lausninni aðra en lykla að hjörtum mannanna, að feyna að ná til þeirra er það eina sem ég  get gert í gegnum mína list og meðal annars þess vegna þykir mér svo vænt um Sveinsstykki Þorvaldar, þessa mannleysu hann Svein, mér þykir vænt um mistökin hans og rimmu hans við samfélagið, Sveinsstykki er harmsaga manns sem trúir goðsögn yfirstéttarinnar um sjálfa sig,“ segir Arnar en sýnt verður í Samkomuhúsinu, næsta föstudagskvöld.

Áður en við höldum aftur út í rigninguna, segir Arnar mér að hann bindi miklar vonir við unga fólkið. Hann dáist að sköpunargleðinni sem orðið hafi til með góðu menntakerfi sem þó sé alltaf í vörn, einkum skapandi greinar.

„Athugaðu að allt sem við höfum verið að ræða, er pólitík.“

Hann segist hrifinn af Pírötum, hrifinn af þeirri hugmynd að eldri borgarar og Píratar bjóði fram saman. Hann krefst nýrrar stjórnarskrár en segir að vitaskuld muni valdaflokkarnir vegna eiginhagsmuna þvælast gegn því.

Svo brosir hann, tekur í höndina á mér og kveður. Eftir lifir röddin í loftinu, tónlistin, sjálfur lífstakturinn sem vitaskuld er pólitískur eins og leikarinn segir, allt er pólitík...

(Þetta viðtal Björns Þorlákssonar birtist fyrst á Kvikunni á hringbraut.is)