Leyndardómsfulla eldhús matgæðingana í Sælkerabúðinni

Landsliðskokkarnir, matreiðslumeistarnir og vinirnir Viktor Örn Andrésson og Hinrik Örn Lárusson kunna svo sannarlega að gleðja bragðlaukana og töfra matargesti upp úr skónum með sinni einstöku matreiðslu. Þeir félagar eiga og reka Sælkerabúðina á Bitruhálsi 2 þar sem matgæðingarnir leggja leið sína reglulega og njóta sælkera matarins sem þar er að finna. Þegar við fáum Viktor til að rifja upp kynni þeirra þá kom ekki á óvart að það skyldi vera gegnum matreiðslu á heimsmælikvarða.

Kynntust á Bocuse d´or

„Við kynntumst í lok ársins 2015 þegar ég var að byrja að undirbúa mig að keppa í Bocuse d´or heims meistarakeppninni í matreiðslu. Þá bað ég Hinrik um að vera aðstoðarmaður hjá mér, en það er full vinna og tók æfingaferlið rúmlega ár. Sú vinna skilaði sér vel þegar við tókum bronsið og lentum í 3. sæti.“

Úr Golfskála í Ostabúðina

Fljótlega eftir Bocuse d´or keppnina héldu þeir áfram að vinna saman. „Við tókum veislur saman öðru hvoru fyrir hina og þessa, brátt var það orðið það mikið að gera að við tókum þá ákvörðun um að stofna veisluþjónustu saman og úr varð Lux veitingar. Þeir félagar stofnuðu Lux veitingar í nóvember árið 2018 og fyrirtækið hélt áfram að vaxa og umsvifin jukust dag frá degi. „Fyrst vorum við með aðsetur í golfskála en fengum síðan fljótlega húsnæði að Bitruhálsi 2 eða þar sem gamla Ostabúðin var til húsa. Til að byrja með vorum við bara með hluta af húsnæðinu enda bara með veisluþjónustu þar sem við vorum mest í pinnamat og einkaveislum. Á sama tíma var búið að vera að nefna við okkur að það gæti nú verið sniðugt að gera eitthvað frekar við rýmið við hliðina. En það er rýmið sem Sælkerabúðin er í dag. Í fyrstu þótti okkur það fráleitt, en þegar við hugsuðum meira um það og ígrunduðum möguleikana þá komust við að þeirri niðurstöðu að þarna væri tækifæri til þess að við gætum gert það sem við vildum gera og þá á okkar hátt.“

FB-Ernir201216-Sælkerab (#3.jpg

Persónulega þjónusta í forgrunni

Þegar kemur að því að velja áherslur og markmið í fyrirtækinu þeirra, Sælkerabúðinni, þá er valið fyrir þá félaga ekki erfitt. „Við leggjum mikið upp úr því að vera með persónulega þjónustu, það hefur alltaf verið númer, eitt, tvö og þrjú hjá Lux veitingum og því vildum við halda því áfram í Sælkerabúðinni. Við erum með frábært úrval af flottu kjöti, bæði erlent og innlent svo erum við mjög framarlega í meðlæti og sósum. En meðlætið okkar er eitthvað sem þú sérð hvergi annars staðar. Allar sósur og meðlæti höfum við verið að gera sjálfir á staðnum.“

FB-Ernir201216-Sælkerabúðin.jpg

Viktor Örn Andrésson og Hinrik Örn Lárusson matreiðslumeistara og landsliðskokkar í draumaeldhúsinu í Sælkerabúðinni.

Sælkerabúðin er ekki bara búð og veisluþjónusta

Er það rétt sem sagt er að hjá ykkur leynist leyndardómsfullt eldhús þar sem matarupplifanir og töfrar fara saman sem eiga sér enga líka? „Það er rétt. Við erum með draumaeldhúsið okkar fullbúið flottustu tækjum frá Miele og með innréttingum sem eru sérhannaðar frá Häcker í Þýskalandi í Sælkerabúðinni bak við tjöldin. Þar verður í boði að koma með smærri hópa í kvöldverð í svokallaða set menu þar sem farið er yfir besta hráefnið okkar hverju sinni. Einnig verðum við með námskeið í eldhúsinu en þar má helst nefna Naut-wellington námskeið, Vín & steikur námskeið, Kokteil námskeið og fleiri nýjungar. Í eldhúsinu erum við líka með fundaraðstöðu þar sem hægt er að tengjast við skjá og fara yfir hlutina, fínt fyrir þá sem vilja komast í nýtt umhverfi og enda svo á skemmtun hjá okkur annaðhvort með flottum kvöldverði eða námskeiði sem laða að bragðlaukana að hjartans list.“ Aðspurður segir Viktor að þeir reyni að verða við öllum séróskum um matarupplifanir og námskeiðum sem streyma til þeirra. „Um daginn vorum við með hóp sem vildi fá matseðil eingöngu með Wagyu nautakjöti, við settum saman 6 rétta kvöldverð fyrir þá og tókst það mjög vel.“

FB-Ernir201216-Sælkerab (3).jpg

Úrval af sælkera steikum sem laða bæði auga og munn.

Veikir fyrir Ribeye steikum

Nóg er í boði af sælkeraréttum, steikum og ýmislegu góðgæti hjá ykkur. Er eitthvað sem er í mestu upppáhaldi hjá ykkur þegar kemur að sælkeramat sem þið getið alls ekki staðist?Við strákarnir erum mjög veikir fyrir Ribeye steikunum og erum mjög duglegir að prufa þær en svo er einfaldleikinn oft valinn. Það er að segja það sem er fljótlegast elda. Þá er mjög gott að taka lambakonfekt eða svínarif með sér heim á grillið ásamt meðlætinu okkar. Mjög fljótlegt og ljúffengt.“

FB-Ernir201216-Sælkerabúð#3.jpg

FB-Ernir201216-Sælkerab (#4.jpg

Hægt er að sjá úrvalið og fylgjast með því sem í boði er á heimasíðu Sælkerabúðarinnar: www.saelkerabudin.is

Myndir Ernir ljósmyndari Fréttablaðið/Hringbraut.